Grein bæjarstjóra, birt í Vikublaðinu Þey 16. júní 2005:

 

Hjá Grundarfjarðarbæ verðum við mjög fljótt vör við það þegar þrengist um á fasteignamarkaði, bæði hvað varðar leiguhúsnæði og fasteignir til kaups/sölu. Mikið er leitað til bæjarins um leiguhúsnæði og með almennar fyrirspurnir um laust íbúðarhúsnæði í bænum. Undanfarna mánuði, og reyndar um alllangt skeið, hefur verið töluverð hreyfing á húsnæði og sú staða er uppi nú að mjög fá hús eru til sölu, kannski má segja að það sé bara búið að kaupa flest það íbúðarhúsnæði sem yfirhöfuð er til sölu, a.m.k. þessa stundina. Mjög mikil eftirspurn er eftir húsnæði og mikið spurt um lóðir og ljóst að margir íhuga nýbyggingar, án þess þó að hafa látið til skarar skríða.

Í byggingu eru nú 7-12 íbúðir, eftir því hvernig talið er, nýbyggðar eru 9-13 íbúðir (á síðasta ári) og u.þ.b. 4 lóðum hefur verið úthlutað að undanförnu án þess að búið sé að sækja um byggingarleyfi eða skila inn teikningum húsa á þeim. Er hér ekki meðtalið atvinnuhúsnæði.

Grundarfjarðarbær bætti á síðasta ári 7 nýjum íbúðum við, með því að byggja kaupleiguíbúðir fyrir eldri borgara, sem losaði um á markaðnum. Í skoðun er nú að byggja fleiri íbúðir, en ekki er sjálfgefið að besta fyrirkomulagið sé að gera slíkt alfarið sem verkefni og með tilheyrandi áhrifum á skuldastöðu bæjarins.

Ljóst er að okkur skortir fleiri nýbyggingar til að bregðast við þeirri þörf sem uppi er fyrir húsnæði. Millistærð af húsnæði, s.s. eins og meðalstór raðhús og parhús, er það sem helst virðist vera þörf fyrir. Undirrituð er á þeirri skoðun að það sé svigrúm fyrir verktaka og tækifæri, til að byggja og selja íbúðir, nýleg dæmi sanna það. Fjölbrautaskóli Snæfellinga, bættar vegasamgöngur, stærra atvinnusvæði, væntingar um hitaveitu og almennt gott ástand á vinnumarkaði, auk greiðs aðgangs að fjármagni, leggjast hér á eitt. Ekki má gleyma því að í dag er gríðarlegur munur á lóðakostnaði hér og á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað varðar lóðaframboðið þá eru 7 lóðir eftir í Ölkeldudal, 4 raðhúsalóðir og 3 einbýlishúsalóðir. Á Hjaltalínsholti eru 8 einbýlishúsalóðir og 6-7 raðhúsalóðir og stakar lóðir er að finna hér og þar í bænum. Eru þá ótaldar lóðir fyrir atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæði við Kverná og víðar. Þessa dagana er svo einmitt verið að taka ákvarðanir um skipulagningu nýs íbúðahverfis við vestanverða Grundargötu, vestan Hjaltalínsholts.

Bæjarstjóri og skipulags- og byggingarfulltrúi hafa rætt við þá aðila sem sýnt hafa áhuga á nýbyggingum og af hálfu bæjarins er reynt að ýta við fólki um að hefja byggingar. Undirrituð hvetur fólk til að kynna sér á bæjarvefnum eða fá senda yfirlitsmynd af lausum lóðum í bænum, slíkt liggur frammi á bæjarskrifstofu.

 

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri