Þótt fjallað hafi verið um vottunarsamtökin Green Globe 21 af og til, bæði í bæjarblöðum og dagblöðum, allt frá því að sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi ákváðu að leita eftir vottun frá þeim skýtur þessi spurning aftur og aftur upp kollinum. Viljum við því svara henni.

 

Green Globe 21 eru samtök sem votta ferðaþjónustufyrirtæki sem stunda sjálfbæran rekstur um allan heim. Hugmynd að stofnun samtakanna kviknaði í kjölfar Ríó ráðstefnunnar 1992 þar sem skrifað var undir Dagskrá 21 en Staðardagskrá 21 er byggð á 28. kafla hennar.

Green Globe 21 var síðan stofnað með stuðningi Alþjóðaferðamálaráðsins og Alþjóðaferðamálasamtakanna árið 1994. Á undanförnum árum hefur orðið mikil þróun innan Green Globe 21 og hafa samtökin nú staðla til að geta vottað tæplega þrjátíu mismunandi greinar ferðaþjónustunnar, auk þess sem þau votta samfélög og einstaka áfangastaði ferðamanna, t.d. eins og Mallorca. Green Globe 21 eru einu vottunarsamtökin í heiminum sem votta samfélög.

 

Vottunarsamtökin Green Globe 21 eru sjálfseignarstofnun sem nýtur fjárstuðnings frá ýmsum öðrum stofnunum. Samtökin eru í samstarfi við tæplega tuttugu háskóla í Ástralíu þar sem starfa yfir 200 aðilar sem gera ekkert annað en rannsaka ferðaþjónustu og sjálfbæra þróun hennar. Hafa þessir rannsóknarmenn lagt grunninn að stöðlum Green Globe 21 sem eru byggðir á Staðardagskrá 21.  Green Globe 21 nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og starfar nú í yfir 50 þjóðlöndum í öllum heimsálfum.

 

Þeir sem leita eftir vottun frá Green Globe 21 ganga í gegnum þríþætt ferli:

A – Skráning í Green Globe 21. Undirbúningur að næsta ferli, leiðbeiningar um vöruþróun, stefnumótun o.fl.

B – Viðmiðum Green Globe 21 mætt. Mælingar á tölulegum vísum, markmið og framkvæmdaáætlun. Þarna er Snæfellsnes nú statt.

C – Vottun Green Globe 21.Viðurkenndur óháður vottunaraðili tekur út starfsemina og kannar hvort viðkomandi uppfyllir staðla Green Globe 21.

 

Hólaskóli er umboðsaðili Green Globe 21 í Íslandi. Aðilar innan skólans veita leiðbeiningar ef fyrirtæki hafa áhuga á að fara inn í vottunarferli Green Globe 21. Nánari upplýsingar er að finna á www.holar.is/greenglobe21 eða hjá Kjartani Bollasyni sérfræðingi í umhverfismálum sem starfar á Hólum. Rétt er að benda á að þótt sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafi mætt viðmiðum Green Globe 21, veitir það ekki fyrirtækjum innan þeirra heimild til að nota merki samtakanna. Stefna sveitarfélaganna er hins vegar sú að hvetja sem flest fyrirtæki til að leita eftir vottun á rekstur sinn, þar sem það mun hækka vægi Snæfellsness sem heildar gagnvart stöðlum Green Globe 21 í vottunarferlinu. Þeir sem hafa áhuga á að láta votta starfsemi sína geta leitað til allra viðurkenndra vottunarsamtaka.

 

Fréttatilkynning frá Framkvæmdaráði Snæfellsness