Nokkuð hefur borið á kvörtunum um ónæði af völdum breimandi slagsmálakatta að næturlagi. Kann að vera að um sé að ræða villiketti, en þó er ljóst að venjulegir heimiliskettir eiga líka hlut að máli. Slíkt er heldur óskemmtilegt.

 

Af því tilefni er vakin athygli á að í mars sl. tók gildi sérstök samþykkt um kattahald í þéttbýli bæjarfélagsins, nr. 262/2004.

Í 4. gr. samþykktarinnar segir:

Eigendur katta skulu gæta þess að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþrifnaði eða raski ró manna. Kattareiganda ber að greiða allt það tjón sem köttur hans veldur, svo og allan kostnað við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf.

Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum að takamarka útiveru katta.

Ennfremur er minnt á að lausaganga hunda er óheimil í Grundarfirði. Eigendur eru vinsamlegast beðnir um að virða ákvæði samþykktar um hundahald, enda er það skilyrði leyfis til að mega halda hund.