Vegagerðin hefur auglýst útboð á framkvæmdum við „hverfisvæna leið“ um Grundarfjörð. Um er að ræða sérstakt verkefni sem felst í breytingu (öryggisaðgerðum) á Grundargötu sem er þjóðvegur. Gatan verður m.a. mjókkuð og á hana verða settar umferðareyjur, „upphækkanir/bugður“ og kantar. 

Framkvæmdin, sem hönnuð er af verkfræðistofunni VST, er gerð með það að leiðarljósi að minnka hraðakstur í gegnum bæinn. Tilboðin verða opnuð þann 21. júni nk. og eru verklok áætluð 1. september 2005.

 

Í framkvæmdinni felst m.a. að lagt verður nýtt malbik á alla götuna, alls 1700 m2, og steyptir kantsteinar meðfram, alls 2700 m, en það verður síðan í verkahring Grundarfjarðarbæjar að ganga frá svæðum utan kantsteins, að gangstéttum.

 

Ljóst er að með þessari „andlitslyftingu“ mun ásjóna aðalgötu bæjarins breytast verulega auk þess sem framkvæmdirnar munu vonandi hafa tilætluð áhrif; að auka umferðaröryggið.

Reynt verður, eftir því sem kostur er, að taka mið af væntanlegum hitaveitulögnum í götuna.