Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar 9. mars sl. samþykkti bæjarstjórn að leita eftir því við Vegagerðina að árangur af verkefninu ,,hverfisvæn leið um Grundargötu" verði metinn, jafnframt því sem hugað verði að nauðsynlegum úrbótum/lagfæringum áður en fullnaðarfrágangur fer fram.

 

Framkvæmdirnar eru unnar fyrir Vegagerðina, eftir hönnun Verkfræðistofunnar VST, en í samvinnu við og að beiðni Grundarfjarðarbæjar, með það að leiðarljósi að bæta umferðaröryggi á Grundargötunni, sem er þjóðvegur í þéttbýli.

 

Bæjarstjórn Grundarfjarðar hafði óskað eftir aðgerðum til að minnka hraðakstur á götunni, sem íbúar höfðu í síauknum mæli kvartað undan. Framkvæmdir hófust í ágúst 2005, en verkinu er ekki lokið. Eftir er að malbika götuna, setja upp skilti við innkomur í bæinn og ljúka öðrum fullnaðarfrágangi. Grundarfjarðarbær sér um frágang innan kantsteina.

 

Framkvæmdin er þegar talin hafa dregið úr umferðarhraða, en á fundi sem bæjarstjórn átti með Vegagerðinni 7. mars sl. var farið yfir framkvæmd verksins. M.a. var rætt hvernig Vegagerðin og bærinn myndu í sameiningu vinna að nauðsynlegum lagfæringum á verkinu áður en að fullnaðarfrágangi kemur í vor og sumar.

 

Á fundi bæjarstjórnar 9. mars var bókað að sérstaklega skyldi hugað að eftirtöldum atriðum:

 

Hvernig hægt sé að fjölga bílastæðum, sérstaklega á austanverðri Grundargötu, hvort gatnamót Grundargötu/Borgarbrautar séu óþarflega þröng fyrir stóra bíla (þ.e. langa flutningabíla), hvernig hægt sé að bæta gatnamót Grundargötu/Borgarbrautar.

 

Ennfremur óskaði bæjarstjórn eftir því að bætt yrði við 2 hraðahindrunum við jaðra bæjarins.

 

Af hálfu Grundarfjarðarbæjar verða skipulags- og byggingarfulltrúi og formaður umhverfisnefndar tengiliðir við Vegagerðina.

 

Á fundinum kom fram að bæjarstjórn leggur áherslu á að Grundargata verði malbikuð í sumar, í samræmi við fyrri áætlun.

 

Umhverfisnefnd og bæjarstjórn höfðu samþykkt að hækka hámarkshraða úr 35 í 50 km að tillögu hönnuða og Vegagerðar þegar framkvæmdinni væri lokið. Framkvæmd er ekki lokið, leyfilegur hámarkshraði hefur ekki verið aukinn og ljóst að bæjarstjórn mun taka sérstaka ákvörðun um slíkt þegar þar að kemur.