Nú eru tæpir tveir dagar í íbúaþing. Þar er ætlunin að fá fram skoðanir íbúa á ýmsu því er snertir skipulag bæjarins og umhverfi, sem og því hvernig samfélagi við viljum búa í.

 

Kolgrafafjarðarbrú á Snæfellsnesi

Hvernig viljum við sjá byggðina þróast? Hvernig bær viljum við vera? Hvar eiga íbúðahverfi að vera og hvernig? Tjaldsvæði, leiksvæði, iðnaðar- og athafnasvæði, o.s.frv.

 

Hvernig eiga gönguleiðir að tengja okkur og hvar eiga að vera svæði til útivistar? Á að þétta byggð, höfum við lagt of mikla áherslu á að eiga ,,græn svæði” hér og þar inní þéttbýlinu, þegar náttúran og sveitin er rétt í göngufæri við okkur?

 

Hvað er aðlaðandi bær? Hvernig gerum við Grundarfjörð enn snyrtilegri? Eigum við að gera átak í skógrækt, úti í sveit eða jafnvel inní bænum? Í görðunum okkar?

 

Allt þetta rúmast í umfjöllun á íbúaþinginu.

 

Undanfarnar vikur hefur orðið verulega vart við aukna eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og töluvert er rætt um að húsnæðisskortur sé farinn að standa okkur Grundfirðingum fyrir þrifum. Töluvert hefur þó verið byggt hér undanfarin ár. Eigum við að blása til enn frekari sóknar og átaks í íbúðabyggingum? Og þá hvernig?

 

Hér er hægt að skoða Yfirlitsmynd af lausum lóðum.

 

(Mynd: fengin að láni af www.ragnarogasgeir.is  )