- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarbær auglýsir til sölu fasteignina að Hrannarstíg 34, Grundarfirði
Um er að ræða raðhús á einni hæð með bílskúr. Húsið er steinsteypt, byggingarár 2004. Húsið er 103,6 fermetrar að stærð, með bílskúr. Húsið skiptist í forstofu, stofu með parketi og útgangi út á timburlagða verönd, eldhús er parketlagt með viðarinnréttingu, efri og neðri skápum. Bæði hjónaherbergi og annað svefnherbergi eru parketlögð og með fataskápum. Úr eldhúsi er gengið inn í geymslu/þvottahús, með máluðu gólfi, en þaðan er innangengt í bílskúr og einnig er gengið þaðan út á sólpall. Bílskúrsgólf er málað og geymsluloft er yfir hluta bílskúrsrýmis. Lóðin er frágengin, með steyptu bílaplani fyrir framan hús og grasflöt sunnan megin.
Húsið er hluti af sjö íbúða raðhúsi og eru hinar íbúðirnar, fyrir utan eina, í eigu Grundarfjarðarbæjar, með fyrirkomulagi búseturéttaríbúða fyrir eldri borgara.
Kvöð er á eigninni um að kaupendur og notendur eignarinnar skuli vera 60 ára eða eldri, og um forkaupsrétt. Hér má sjá kvaðirnar.
Eignaskiptayfirlýsingu má sjá hér.
Í næsta nágrenni eru fleiri íbúðir ætlaðar eldri borgurum. Hjúkrunarheimilið Fellaskjól er handan götunnar, en þar er eldaður matur sem stendur eldri borgurum til boða að kaupa. Stutt er að fara í aðalmatvöruverslun bæjarins og heilsugæslustöð, eða um 500 metrar og um 300 metrar að íþróttahúsi/sundlaug. Gönguleiðir eru þægilegar á svæðinu. Brunabótamat er 49.510.000 kr.
Ásett verð er 45.500.000 kr. – fjörutíuogfimmmilljónirogfimmhundruðþúsund krónur.
Opið hús verður að Hrannarstíg 34, sunnudag 23. nóvember nk. kl. 11-12 og fimmtudag 27. nóvember kl. 13-14.
Óskað er eftir tilboðum í eignina. Hér er tilboðsblað sem bjóðendur geta prentað út og skilað útfylltu.
Tilboðum skal skila í Ráðhús Grundarfjarðar, Borgarbraut 16, í lokuðu umslagi merkt „Hrannarstígur 34“, fyrir kl. 14:00 mánudaginn 8. desember 2025.
Öll tilboð verða opnuð á sama tíma, í Ráðhúsinu, mánudaginn 8. desember 2025 kl. 14:05 og er bjóðendum velkomið að vera viðstaddir.
Grundarfjarðarbær áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum og/eða gera gagntilboð gagnvart þeim bjóðanda sem er með hagstæðasta tilboðið. Öll tilboð þurfa að hafa lágmarksgildistíma í rúma 7 daga, eða út mánudaginn 15. desember, á meðan unnið er úr þeim.
Gjöld sem kaupandi þarf að standa straum af vegna kaupa á fasteign:
1. Stimpilgjald af fasteignamati fasteignar er 0,8%, en 0,4% fyrir fyrstu kaup og 1,6% fyrir lögaðila.
2. Þinglýsingargjald af kaupsamningi, skuldabréfi, veðleyfi, afsali o.s.frv. er kr. 2.700 af hverju skjali.
3. Lántökukostnaður samkvæmt verðskrá viðkomandi lánastofnunar.
Skoðunarskylda kaupanda
Í lögum um fasteignakaup nr. 40/2002 er kveðið á um ríka skoðunarskyldu kaupenda á fasteignum. Væntanlegum kaupendum er því bent á að kynna sér vel ástand fasteignar við skoðun og fyrir tilboðsgerð og ef þurfa þykir að leita til sérfræðinga um nánari ástandsskoðun.
Nánari upplýsingar veitir bæjarstjóri í síma 430-8500 eða í netfangið bjorg@grundarfjordur.is
Sjá myndir:

