Hönnuðir íbúða fyrir eldri borgara eru að leggja lokahönd á hönnun og frágang teikninga. Verið er að ákveða gólfefni, liti og viðartegundir í innréttingum, fyrirkomulag tækja í eldhúsi og fleira í þeim dúr. Hönnuðir settu sér að vera búnir fyrir lok febrúar með allar teikningar en af hálfu bæjarins er ýtt á eftir að þeir ljúki vinnu sinni sem allra fyrst, til að unnt sé að koma útboði af stað.  

Húsnæðisnefnd hefur samþykkt fyrir sitt leyti drög að reglum vegna úthlutunar íbúða fyrir eldri borgara. Þar er m.a. kveðið á um hvaða skilyrði umsækjendur um íbúðir þurfa að uppfylla og hvaða þættir séu hafðir til hliðsjónar þegar lagt er mat á umsóknir. Er sérstaklega mikilvægt að þessar reglur séu til staðar, ef fleiri en einn umsækjandi er um hverja íbúð. Reglurnar hafa verið samþykktar í bæjarráði og verða endanlega staðfestar í bæjarstjórn á fundi 13. febrúar.

 

Nýlega rann út frestur til að sækja um lausa íbúð að Hrannarstíg 18, sem auglýst var í Vikublaðinu. Ein umsókn barst, en úthlutun hefur ekki farið fram.