Af vef Skessuhorns

Fjörutíu manns voru með hávær mótmæli í miðbæ Grundarfjarðar klukkan 12 í dag. Vildi fólkið sýna samstöðu en á sama tíma voru mótmæli annarsstaðar á landinu, meðal annars í Reykjavík og Akureyri þar sem fyrirhuguðum Icesave samningum var mótmælt. “Hávaðinn var ærandi, meðal annars notast við kúabjöllur, trommur og lúðra. Þá voru bílflautur þeyttar óspart. Þetta hlýtur að hafa heyrst suður á Austurvöll,” sagði Jónas Guðmundsson íbúi í Grundarfirði í samtali við Skessuhorn. Áhugafólk um réttlátan og löglegan Icesave samning heldur því fram að samningurinn sem slíkur muni kosta hvern Íslending að minnsta kosti milljón króna. Til stendur að Alþingi afgreiði ríkisábyrgð vegna Icesafe samningsins í dag.