N.k. laugardag, þann 24. júní, verður Þjóðbúningadagur í Norska húsinu í Stykkishólmi og geta gestir kynnt sér íslenska þjóðbúninga og handverk þeim tengt, á milli klukkan 14.00 og 16.00.

 

 

Á jarðhæð Norska hússins er uppsettur vefstóll og geta gestir spreytt sig við vefnað og á efri hæðinni verður sýnt knippl og baldýring. Byggðasafni Snæfellinga var færður íslenskur skautbúningur að gjöf, fyrir skemmstu og verður hann sýndur sem og faldbúningur Ingibjargar Ágústsdóttur.

 

Faldbúningurinn dregur nafn sitt af höfuðbúnaðinum, svonefndum faldi sem gerður var úr samanbrotnum klútum sem vafðir voru um höfuðið. Búningurinn mótaðist í tímans rás og 19. öld var hann einkum notaður sem sparibúningur og á seinasta fjórðungi 19. aldar lagðist notkun hans af. Skautbúningurinn var hins vegar hannaður sem íslenskur hátíðarbúningur af Sigurði Guðmundssyni málara, með hliðsjón af gamla faldbúningnum. Báðar tegundir af  þessum íslensku búningum eru mjög glæsilegar og er mikils um vert að konur fari að gefa þeim aukinn gaum. Í samfélagi samtímans er mikilvægt að gamalli verkþekkingu og handverki búningsins sé haldið við og það gleymist ekki og er markmiðið með búningadeginum að auka skilning og þekkingu almennings á því handverki sem felst í íslenska þjóðbúningnum.

 

Í tilefni dagsins er ókeypis inn á safnið og einnig er öllum konum sem klæðast íslenskum þjóðbúningi þennan dag, boðið í kaffiboð í stássstofunni hjá frú Önnu Magdalenu í Norska húsinu á milli kl. 14.00 og 16.00.

 

Konur sem eiga eða hafa afnot af íslenskum búningi eru hvattar til að bera hann þennan dag og mæta í Norska húsið en aðrir eru hvattir til að koma og kynna sér íslenskt handverk.