Nemendur 8. – 10. bekkjar Grunnskóla Grundarfjarðar höfðu það skemmtilegt í dag, þegar haldinn var í Stykkishólmi íþróttadagur unglingadeilda grunnskóla á Snæfellsnesi.

Þau héldu af stað frá skólanum um kl. 8.30 í tveimur rútum og komu í Stykkishólm upp úr klukkan 9. Þar var vel tekið á móti krökkunum sem hittu þar vini sína og kunningja úr öðrum skólum á Snæfellsnesi.

 

Dagskráin hófst á kynningu í glæsilegu íþróttahúsi þeirra í Stykkishólmi og síðan var boðið upp á ýmiss konar afþreyingu fyrir unglingana. Þar má nefna körfubolta, bandý, fótbolta, æfingar í þreksal, spil og tafl, tölvur, dans, sjónhverfingar og fleira.

 

Unglingarnir skemmtu sér hið besta og voru ánægð með daginn, enda voru grundfirsku krakkarnir til fyrirmyndar og tóku vel þátt í því sem boðið var upp á. Það var því ánægður hópur sem kom heim aftur um tvöleytið í dag.