Tilkynnt var um val á íþróttamanni Grundarfjarðar 2012 á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei sunnudaginn 2. desember. Bergur Einar Dagbjartsson hlaut titilinn fyrir frábæran árangur í blaki. Auk farandbikars hlaut hann að launum verðlaunagrip til eignar.

Bergur Einar er í unglingalandsliði U17 aðeins 15 ára gamall. Hann þykir prúður og agaður leikmaður. Bergur Einar fór til Finnlands með U17 á haustdögum og stóð sig vel. Hann spilar með meistaraflokki karla UMFG ásamt því að stunda æfingar og spila með 2. og 3. flokki drengja í HK. Hann hefur einnig aðstoðað við þjálfun yngri flokka UMFG og sýnt því mikinn áhuga. Hann þykir mikil fyrirmynd bæði innan vallar sem utan.

 

Þorsteinn Már Ragnarsson var einnig tilnefndur fyrir glæsilegan árangur í knattspyrnu. Þorsteinn hefur verið valinn íþróttamaður Grundarfjarðar tvö undangengin ár.