Anna María íþróttamaður Grundarfjarðar 2023.
Anna María íþróttamaður Grundarfjarðar 2023.

Val á íþróttamanni Grundarfjarðar var kunngert við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar á gamlársdag. 

Það er íþrótta- og tómstundanefnd Grundarfjarðarbæjar, ásamt fulltrúum íþróttafélaganna fjögurra, sem velur íþróttamann Grundarfjarðar út frá tilnefningum íþróttafélaga og deilda.

Að þessu sinni voru þrír afreksíþróttamenn tilnefndir, en það voru þau Anna María Reynisdóttir fyrir blak, Dagný Rut Kjartansdóttir fyrir skotfimi og Sigurþór Jónsson fyrir golf. Öll leggja þau mikinn metnað í sína íþrótt og eru góðar fyrirmyndir.

Fyrir valinu varð Anna María Reynisdóttir en hún hefur verið lykilkona í blakliði UMFG síðastliðin 28 ár og á það við bæði innan vallar sem utan. Hún spilar blak af lífi og sál, hefur verið góð fyrirmynd yngri leikmanna og tekið vel á móti nýjum kynslóðum leikmanna.

Í eldri frétt á vefnum má lesa umsagnir um öll sem tilnefnd voru. 

Við sama tækifæri heiðraði íþrótta- og tómstundanefnd sjálfboðaliða í baklandi íþróttastarfs og tómstunda fyrir óeigingjarnt starf sitt í gegnum árin. Nefndin óskaði eftir samstarfi við íþrótta- og félagasamtök í bænum um tilnefningar sjálfboðaliða í þeirra baklandi og bárust tvær tilnefningar að þessu sinni og voru þær eftirfarandi:

Elísabet Árnadóttir fyrir framlag hennar til íþróttamála og hreyfingar eldri borgara.

Gréta Sigurðardóttir fyrir framlag til blakíþróttarinnar á vegum UMFG.

Grundfjarðarbær og samstarfsaðilar óska öllum tilnefndum velfarnaðar og Önnu Maríu hjartanlega til hamingju með titilinn!

Myndir: Tómas Freyr Kristjánsson