Þorsteinn Már Ragnarsson, íþróttamaður Grundarfjarðar 2011

 

Á aðventudegi Kvenfélagsins Gleym mér ei s.l. sunnudag var valinn íþróttamaður ársins 2011. Sá sem hlaut þá nafnbót þetta árið var Þorsteinn Már Ragnarsson fyrir glæsilegan árangur í knattspyrnu, en hann vann einnig titilinn í fyrra. Fyrir vikið fékk hann fallegt listaverk sem Dagbjört Lína gerði en henni eru færðar miklar þakkir fyrir, sem og Líkamsræktinni og Samkaupum fyrir stuðninginn við verðlaunin. 

Þorsteinn Már var fyrirliði Víkings Ólafsvíkur síðastliðið sumar og var lykilmaður þar. Hann spilaði 18 leiki og skoraði 6 mörk. Þegar fjórir leikir voru eftir af tímabilinu var hann lánaður til Raufoss í Noregi þar sem að hann lék við góðan orðstír og skoraði nokkur mörk. Raufoss vildi kaupa hann sem og 7 önnur lið úr efstu deild karla í knattspyrnu. Það fór svo að lokum að Þorsteinn skrifaði undir 3 ára samning við bikar og íslandsmeistara KR og mun leika þar næsta sumar.
Það má nefna að Þorsteinn var einnig lykilmaður í Íslenska landsliðinu í Futsal og spilaði alla leiki Íslands í okkar riðli. Hann skoraði 3 mörk í þessum þremur leikjum í Futsal. Tvö á móti Armeníu og eitt á móti Grikklandi.
Þorsteinn er mikill íþróttamaður og frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í knattspyrnu á Snæfellsnesi.

Frá vinstri: Guðrún Ösp, Ágúst, Þorsteinn Már og Anna María

Einnig voru tilnefnd Anna María Reynisdóttir fyrir glæstan árganur í blaki, Ágúst Jónsson fyrir framúrskarandi árangur í golfíþróttinni og Guðrún Ösp Ólafsdóttir fyrir frábæran árangur í hestaíþróttum.

Menningar- og tómstundanefnd Grundarfjarðar