Íþróttamaður Grundarfjarðar 2022 - Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir
Íþróttamaður Grundarfjarðar 2022 - Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir

Val á íþróttamanni Grundarfjarðar var kunngert við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar á gamlársdag. 

Það er íþrótta- og tómstundanefnd Grundarfjarðarbæjar, ásamt fulltrúum íþróttafélaganna fjögurra, sem velur íþróttamann Grundarfjarðar út frá tilnefningum íþróttafélaga og deilda.

Að þessu sinni voru þrír afreksíþróttamenn tilnefndir, en það voru þau Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir fyrir hestaíþróttir, Sigurþór Jónsson fyrir golf og Unnsteinn Guðmundsson fyrir skotfimi. Öll leggja þau mikinn metnað í sína íþrótt og eru góðar fyrirmyndir.

Fyrir valinu varð Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir en hún hefur verið í fremstu röð á landsvísu í hestaíþróttum í sínum aldursflokki undanfarin ár.

Harpa Dögg keppir í meistaradeild Líflands og æskunnar, sem er keppni í hæsta flokki í hennar aldurshópi. Á opnu WR íþróttamóti Sleipnis var hún í úrslitum í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í. Sömuleiðis var hún valin í U-21 landslið Íslands í hestaíþróttum á árinu og fór til Álandseyja og keppti þar í tölti T1. Hún endaði þar í öðru sæti í B-úrslitum sem verður að teljast frábær árangur. Harpa Dögg þjálfar hrossin sín sjálf og leggur mikinn tíma, metnað og ástríðu í það. Hún er því vel að þessu kjöri komin. 

Í eldri frétt á vefnum má lesa umsagnir um öll sem tilnefnd voru. 

Við sama tækifæri ákvað íþrótta- og tómstundanefnd að standa fyrir þeirri nýbreytni að veita sjálfboðaliðum í baklandi íþróttastarfs og tómstunda þakklætisvott fyrir óeigingjarnt starf sitt.

Sjálfboðaliðarnir gera það að verkum að starfið í félögunum er jafn öflugt og raun ber vitni. Gert er ráð fyrir því að útnefningin verði árleg. Með þessu vill íþrótta- og tómstundanefnd vekja athygli á mikilvægu starfi sjálfboðaliðanna og koma á framfæri þakklæti fyrir þeirra ómetanlega framlag.

Nefndin óskaði eftir samstarfi við félagasamtök í bænum um tilnefningar sjálfboðaliða í þeirra baklandi og bárust átta tilnefningar að þessu sinni og eru þær eftirfarandi:

Þorsteinn Björgvinsson, Unnsteinn Guðmundsson og  Birgir Guðmundsson fyrir framlag þeirra til Skotgrundar, Skotfélags Snæfellinga.

Kristín Halla Haraldsdóttir fyrir frábær störf í þágu íþróttamála í Grundarfirði fyrir UMFG. Kristínu er þakkað fyrir mjög góð störf  en hún hefur þjálfað samfellt hjá UMFG síðan 1998 eða í 24 ár.

Loftur Árni Björgvinsson og Miroslav Honek fyrir uppbygginu og góð störf við rafíþróttadeild UMFG.

Stjórn Skíðadeildar Snæfellinga fyrir þeirra vinnu við uppbyggingu á skíðasvæðinu í Grundarfirði og Sunneva Gissurardóttir fyrir óeigingjörn sjálfboðaliðastörf í þágu Félags eldri borgara.

Grundfjarðarbær og samstarfsaðilar óska öllum tilnefndum velfarnaðar og Hörpu Dögg hjartanlega til hamingju með titilinn!