Mynd: Helga Sjöfn Ólafsdóttir, 31. des. 2025
Mynd: Helga Sjöfn Ólafsdóttir, 31. des. 2025

  

Sjálfboðaliðar ársins 2025

 

Íþrótta- og tómstundastarf er hornsteinn hvers samfélags. Á bak við gott íþrótta- og tómstundastarf liggur þrotlaus vinna sjálfboðaliða. Sjáflboðaliðastarf í Grundarfirði hefur alla tíð verið mjög sterkt og sést það glöggt á allri þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað um þessar mundir. Það er ómetanlegt að vera svona rík af öflugu fólki sem er til í að leggja á sig þá miklu vinnu sem það felur í sér að halda úti jafn fjölbreyttu og öflugu íþrótta- og félagsstarfi og hér er. 

Á hverju ári tilnefna íþróttafélög og félagasamtök sjálfboðaliða sem eru heiðraðir við hátíðlega athöfn á Gamlársdag, samhliða því að íþróttamaður ársins er verðlaunaður og börn ársins fá afhentar "sængurgjafir samfélagsins".  

Eftirfarandi eru innsendar tilnefningar félagasamtaka fyrir a´rið 2025:

Tilnefningar frá UMFG:

Gréta Sigurðardóttir, Eva Kristín Kristjánsdóttir og Silja Guðnadóttir 

Gréta, Eva Kristín og Silja hafa um árabil verið í stjórn blakdeildar UMFG. Þær eiga stóran þátt í uppbyggingu deildarinnar og þeirri velgengni sem lið UMFG hafa náð á þeim mótum sem farið hefur verið á. Blakdeild UMFG á lið í 1. deild og einnig í 5. deild ásamt því að vera með tæplega 40 iðkendur í yngri flokkum. Þær hafa haldið utan um starfið, skipulagt mót, séð um fjáraflanir og um öll samskipti við Blaksamband Íslands. Þá taka þær að sér liðsstjórn, gistingu og þjálfun á mótum yngri flokka án greiðslu. Þær eru góðar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur bæði innan vallar sem utan. Félagið er mjög þakklátt fyrir öll þau sjálfboðaliðstörf sem þær sinna og er stolt af starfinu sem félagið stendur fyrir.

Smellið á hverja mynd, til að lesa myndatexta.

   

 

Skíðaráð UMFG

Skíðaráð UMFG hefur á undanförnum árum unnið mikið og gott starf við uppbyggingu Skíðasvæðis Snæfellsness. Á síðustu árum hefur verið staðið fyrir söfnun til að kaupa nýjan snjótroðara og nú síðast safnað fyrir nýju aðstöðuhúsi sem var reist nú á haustmisseri. Húsið kemur til með að hýsa snjótroðarann, geyma dót sem skíðasvæðið á ásamt því að bæta aðstöðu gæslufólks og skíðafólks. Þá hafa ljóskastarar verið endurnýjaðir, snjógildrum komið upp og klöpp brotin til að bæta aðstöðu í brekkunni. Þetta hefur allt verið gert í sjálfboðaliðastarfi af hendi skíðaráðs en það þarf dugnað og eljusemi til að sinna stórum verkefnum sem þessum í sjálfboðaliðastarfi. Félagið er heppið með þessa öflugu sjálfboðaliða sem hafa lagt mikinn metnað í að byggja upp frábært skíðasvæði. Þessir einstaklingar eiga skilið mikið hrós fyrir sína vinnu.

 

 

Tilnefningar frá Skotgrund, Skotfélagi Snæfellsness:

Samúel Pétur Birgisson

Samúel Pétur er einn virkasti félagsmaður Skotfélags Snæfellsness. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur Sammi verið einn virkasti maður félagsins í yfir áratug. Sammi byrjaði ungur í félaginu og hefur alla tíð verið liðtækur, hvort sem það sé vinnudagur, mótahald, skotvopnasýning eða annað. Hann er alltaf með - tilbúinn að leggja á sig ómælda vinnu fyrir félagið og félagið er honum afar kært. Samúel hefur komið að og tekið þátt í skipulagningu fjölda skotvopnasýninga, skotvopnanámskeiða, skotprófa og þá er hann einnig í stjórn félagsins. Hann mætir á alla þá vinnudaga og fundi sem hann á kost á að mæta á og er alltaf tilbúinn að standa vaktina þegar það eru mót eða aðrir viðburðir. Samúel er öðrum félagsmönnum góð fyrirmynd og mun án efa vera lykilmaður í starfi félagsins í framtíðinni.
Takk fyrir allt, Sammi!  

 

 

Guðmundur Reynisson

Gummi Reynis er einn af tryggustu félagsmönnum Skotfélags Snæfellsness. Hann hefur verið í félaginu lengi og er alltaf mættur þegar á þarf að halda og oft er hann kominn í verkin óumbeðinn. Hann hefur tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu undanfarin ár og hann er alltaf mættur með fyrstu mönnum þegar lyfta þarf hamri. Þegar skotmót eru haldin þá er hann alltaf tilbúinn að græja og gera eða standa við grillið. Að mótum loknum þá er hann síðastur til þess að yfirgefa svæðið þegar öllum frágangi er lokið. Gumma er annt um æfingasvæði félagsins og í frítíma sínum fer hann eftirlitsferðir inn á svæði til þess að líta eftir æfingasvæðinu og eigum félagsins. Þá hefur hann einnig komið að fjáröflun fyrir félagið og hefur m.a. safnað saman gosdósum sem hann fer með endurvinnslu og leggur innkomuna inn á reikning félagsins. Það er ómetanlegt að eiga sjálfboðaliða eins og Gumma.
Takk fyrir allt, Gummi!

 

 

Tilnefning frá Golfklúbbnum Vestarr Grundarfirði: 

Hugrún Elísdóttir

Hugrún hefur stýrt mótanefnd Vestarr í nokkur ár og hefur skilað miklu og góðu starfi fyrir klúbbinn á þeim tíma. Hún hefur lagt mikla vinnu í starf fyrir mótanefnd og Vestarr. Hún hefur sinnt því vel.

 

Sængurgjafir samfélagsins

Við sama tilefni, á Gamlársdag, var nýfæddum Grundfirðingum, börnum fæddum árið 2025, færð sængurgjöf samfélagsins. Grundarfjarðarbær, Leikskólinn Sólvellir, Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Grundarfirði ásamt fyrirtækjum í bænum hafa frá árinu 2006 boðið nýfædd börn í Grundarfirði velkomin, með gjöf frá samfélaginu. 

Gjöfin hefur verið kölluð „sængurgjöf samfélagsins“ og er hluti af fjölskyldustefnu Grundfirðinga, sem sett var 2006. Hugmyndin átti rætur sínar að rekja til Finnlands, þar sem tíðkast hafði að gefa nýfæddum börnum hagnýtar gjafir í kassa en kassann mátti svo nýta sem vöggu. 

Sængurgjöfin í ár var frá Grundarfjarðarbæ, Leikskólanum Sólvöllum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Grundarfirði og Blossa. Hverju barni eru færð að gjöf hagnýtur fatnaður, bók, þroskaleikföng, tannbursti og tannkrem. 

Í árslok búa í Grundarfirði 9 börn fædd 2025, 6 strákar og 3 stelpur.