Harpa Dögg íþróttamaður Grundarfjarðar 2022
Harpa Dögg íþróttamaður Grundarfjarðar 2022

Tilnefningar til Íþróttamanns Grundarfjarðar 2023

Þrjár tilnefningar bárust til kjörs á íþróttamanni Grundarfjarðar árið 2023 og verða úrslitin gerð kunn við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsinu á gamlársdag, sunnudaginn 31. desember nk. kl. 11:00.

Við sama tækifæri verða sjálfboðaliðar heiðraðir fyrir störf í þágu íþrótta- og tómstundamála í Grundarfirði og sængurgjöf samfélagsins afhent foreldrum barna sem fæddust árið 2023.

Þær þrjár tilnefningar sem bárust til íþróttamanns Grundarfjarðar 2023 komu frá Ungmennafélagi Grundarfjarðar, Skotfélagi Snæfellsness og Golfklúbbnum Vestarr, GVG, og eru eftirtalin tilnefnd í stafrófsröð:

 

Anna María Reynisdóttir -  Ungmennafélag Grundarfjarðar

Anna María hefur verið lykilkona í blakliði UMFG síðastliðin 28 ár og á það við bæði innan vallar sem utan. Hún spilar blak af lífi og sál, hefur verið góð fyrirmynd yngri leikmanna og tekið vel á móti nýjum kynslóðum leikmanna. Anna María hefur haldið utan um og skipulagt heimaleiki og ferðir liðsins út á land. Einnig hefur hún setið í stjórnum barna- og unglingastarfsins og stjórn meistaraflokks. 

Dagný Rut Kjartansdóttir - Skotfélag Snæfellsness 

Dagný Rut tók þátt í PRS mótaröðinni í sumar þar sem keppt var um Íslandsmeistaratitilinn í PRS. Þetta er sex móta röð þar sem keppt er út um allt land og þrjú bestu mótin telja til stiga. Dagný Rut keppti í verksmiðjuflokki og náði góðum árangri og endaði í öðru sæti af tíu keppendum. Þess má geta að Dagný Rut var eina konan sem keppti í þessum flokki og var eini keppandinn í þessum flokki sem tók þátt í öllum mótunum.    

Sigurþór Jónsson - Golfklúbburinn Vestarr 

Sigurþór er forgjafarlægsti kylfingur Golfklúbbsins Vestarr. Hann tók þátt í tveimur mótum í mótaröð Golfsambands Íslands um Íslandsmeistaratitilinn í golfi, en þar keppti hann við bestu kylfinga Íslands. Einnig var hann í sveit félagsins sem tók þátt í Íslandsmóti golfklúbba sem haldið var í Stykkishólmi, þar sem hann ásamt félögum sínum vörðu sæti sitt í 4. deild karla. Sigurþór er góður kylfingur sem tekur íþrótt sína alvarlega.