Anna María Reynisdóttir íþróttamaður Grundarfjarðar 2023 ásamt móðir sinni Elsu Árnadóttir sem var h…
Anna María Reynisdóttir íþróttamaður Grundarfjarðar 2023 ásamt móðir sinni Elsu Árnadóttir sem var heiðruð fyrir störf í þágu íþrótta- og tómstundamála í Grundarfirði

Tilnefningar til Íþróttamanns Grundarfjarðar 2024

 

Fjórar tilnefningar bárust til kjörs á íþróttamanni Grundarfjarðar árið 2024 og verða úrslitin gerð kunn við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsinu á gamlársdag, þriðjudaginn 31. desember nk. kl. 11:00.

Við sama tækifæri verða sjálfboðaliðar heiðraðir fyrir störf í þágu íþrótta- og tómstundamála í Grundarfirði og sængurgjöf samfélagsins afhent foreldrum barna sem fæddust árið 2024.

Þær fjórar tilnefningar sem bárust til íþróttamanns Grundarfjarðar 2024 komu frá Ungmennafélagi Grundarfjarðar, Skotfélagi Snæfellsness, Hesteigendafélagi Grundarfjarðar og Golfklúbbnum Vestarr, GVG. Eftirtalin eru tilnefnd í ár og eru hér talin upp í stafrófsröð:

Alexandra Björg Andradóttir -  Ungmennafélag Grundarfjarðar

Alexandra, sem er aðeins 15 ára gömul, hefur sýnt mikla hæfileika og framfarir í blakíþróttinni síðustu ár. Alexandra er lykilleikmaður í öllum þremur liðum UMFG, þ.e. kvennaliði U16, í 6. deild kvenna og 1. deild kvenna. Í byrjun hausts var hún svo valin í U17 ára landsliðið eftir langar og strangar æfingahelgar, sem hún sótti vel. Alexandra keppti með landsliðinu á Norðurlandamóti í Danmörku nú í október og vann liðið brons á því móti. Alexandra átti góðar innkomur með landsliðinu og er reynslunni ríkari eftir ferðina.

Anna María Reynisdóttir - Golfklúbburinn Vestarr 

Anna María hefur verið kappsöm á golfvöllum landsins í sumar. Hún hefur lækkað forgjöf sína úr 18,3 í byrjun sumars niður í 13,7, sem er mikið afrek. Hún hefur verið dugleg að mæta á golfvöllinn til æfinga í sumar og er mikil keppnismanneskja, ásamt því að vera góður liðsfélagi. Á golfmótum sem hún tók þátt í síðastliðið sumar var Anna María ýmist í verðlaunsætum eða alveg við verðlaunasæti.  

Dagný Rut Kjartansdóttir - Skotfélag Snæfellsness 

Dagný Rut hefur verið einn fremsti keppandi Skotfélagsins í skotíþróttum um árabil og þá sérstaklega í PRS skotfimi. Á liðnu ári tók hún þátt í sex af sjö mótum í Íslandsmeistaramótaröðinni og vann til tvennra gullverðlauna og fjögurra silfurverðlauna. Þegar mótin sjö eru tekin saman endaði hún í 2. sæti af 13 keppendum.

Sól Jónsdóttir – Hesteigendafélag Grundarfjarðar 

Sól hefur sýnt að hún er framúrskarandi knapi sem á bjarta framtíð fyrir sér í hestaíþróttum. Sól keppti á  fjölmörgum mótum á árinu og sigraði m.a. Snæfellingamótaröðina í sínum aldursflokki.  Á KB-mótaröðinni varð hún stigahæst í sínum aldursflokki og á Gæðingamóti Snæfellinga lenti hún í öðru sæti.