Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, Alexandra Björg Andradóttir íþróttamaður Grundar…
Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, Alexandra Björg Andradóttir íþróttamaður Grundarfjarðar 2025 og Hinrik Konráðsson íþrótta- og tómstundafulltrúi. Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson, 8. jan. 2026.

Íþróttamaður Grundarfjarðarbæjar 2025

 

Val á íþróttamanni Grundarfjarðar var kunngjört við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar á gamlársdag. 

Það er íþrótta- og tómstundanefnd Grundarfjarðarbæjar, ásamt fulltrúum íþróttafélaganna fjögurra, sem velur íþróttamann Grundarfjarðar út frá tilnefningum íþróttafélaga og deilda.

Að þessu sinni voru þrír afreksíþróttamenn tilnefndir, en það voru þau Alexandra Björg Andradóttir fyrir blak, Heimir Þór Ásgeirsson fyrir golf og Sól Jónsdóttir fyrir hestaíþróttir. Öll leggja þau mikinn metnað í sína íþrótt og eru góðar fyrirmyndir. 

Fyrir valinu varð Alexandra Björg Andradóttir, en þetta er í annað sinn sem hún hlýtur nafnbótina íþróttamaður Grundarfjarðar. Hún heldur áfram að taka miklum framförum og er orðin lykilmaður í UMFG þrátt fyrir ungan aldur, einnig hefur hún verið að taka þátt í landsliðsverkefnum fyrir Íslands hönd og er þessa dagana (janúar 2026) stödd með U17 landsliðinu í Dublin. 

Eftirfarandi texti frá íþróttafélögum fylgdi tilnefningum um hvern íþróttamann (í stafrófsröð).

Alexandra Björg Andradóttir -  Ungmennafélag Grundarfjarðar

Alexandra er efnilegur og öflugur leikmaður. Hún er einn af lykilleikmönnum í meistaraflokki kvenna, sem spilar í 1. deild á yfirstandandi tímabili.  Alexandra er mikil fyrirmynd fyrir unga iðkendur – dugleg, metnaðarfull og með mikið keppnisskap.

Á árinu [2025] hefur var hún valin í tvö verkefni með íslenska landsliðinu. Dagana 26.–30. júní fór hún til Írlands og keppti á Smáþjóðaleikunum með unglingalandsliðinu, þar sem hún stóð sig afar vel. Síðar á árinu, 23.–27. október, hélt hún til Færeyja með U19 landsliðinu, og átti þar einnig frábæra leiki.
Framhaldið er svo sannarlega bjart, því Alexandra hefur verið valin í U17 landsliðið sem keppir í undankeppni EM á Írlandi 11.–15. janúar 2026. Það er mikill heiður og staðfesting á þeirri miklu vinnu sem hún hefur lagt í íþróttina.
Alexandra Björg Andradóttir er ekki aðeins styrkur fyrir UMFG og landslið Íslands, heldur einnig fyrirmynd fyrir þau sem stefna hátt í blaki og okkar sívaxandi félag.

Heimir Þór Ásgeirsson - Golfklúbburinn Vestarr 

Heimir er stöðugur kylfingur, hann hefur forgjöf sem telur 6,6 og er með forgjafalægstu kylfingum klúbbsins. Hann er duglegur að æfa íþróttina og taka þátt í keppnum sem henni tengist.
Í keppni klúbbsins í Íslandsmóti golfklúbba í sumar var Heimir einn af lykilmönnum í sigri liðsins í 4. deild og mun klúbburinn spila í 3. deild næsta sumar.

Sól Jónsdóttir – Hesteigendafélag Grundarfjarðar 

Sól hefur verið mjög dugleg að keppa og sýnt að hún er alltaf að bæta sig sem knapi og hefur mikin metnað og mikla hæfileika.

Hér er árangur Sólar í keppni árið 2025:

  • Kb Fjórgangur  2. sæti.
  • Kb tölt fr 3. sæti.
  • Kb Gæðingakeppni 2. sæti.
  • Opið íþróttamót Snæfelling Fjórgangur 1. sæti.
  • Opið íþróttamót Snæfelling Fjórgangur úrslit 2. sæti.
  • Gæðingamót Snæfellings 3. sæti.
  • Fjórðungsmót Vesturlands gæðingakeppni 3. sæti.
  • Íslandsmót barna og unglinga gæðingakeppni 11. sæti.
  • Blue Lagoon Fjórgangur 24. sæti.

 

 

 

Grundarfjarðarbær og samstarfsaðilar óska öllum tilnefndum velfarnaðar og Alexöndru Björgu hjartanlega til hamingju með titilinn!