Jöklakórnum, sem er samkór nokkurra kirkjukóra á Snæfellsnesi, hefur verið boðið í „messuheimsókn“ í Hallgrímskirkju, í tengslum við Kirkjudaga sem haldnir verða í Reykjavík 24. - 25. júní að lokinni Prestastefnu. Kórinn mun syngja við guðsþjónustu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 26. júní n.k. og verður messunni útvarpað.

 

Kirkjudagar eru haldnir af Þjóðkirkjunni fjórða hvert ár og í tengslum við þá mun fjöldi presta, organista, kóra o.fl. úr söfnuðum af landsbyggðinni taka virkan þátt í helgihaldi á höfuðborgarsvæðinu. 

 

Kórinn, eða kórarnir, undirbúa sig nú fyrir þátttökuna. Friðrik V. Stefánsson organisti og kórstjóri í Grundarfirði mun jafnframt leika á orgel Hallgrímskirkju í athöfninni. Veronica Osterhammer á Brimilsvöllum, kórstjóri kirkjukórs Ólafsvíkurkirkju, mun syngja einsöng en hún, ásamt Friðrik Vigni og Jóhönnu Guðmundsdóttur kórstjóra kirkjukórs Stykkishólmskirkju munu stjórna kórnum við athöfnina. Sóknarprestur okkar Grundfirðinga, sr. Elínborg Sturludóttir, mun prédika við guðsþjónustuna.

 

Nánar má lesa um Kirkjudaga og dagskrá þeirra á vefnum www.kirkjan.is/kirkjudagar