Útgáfu Vikublaðsins Þeys í Grundarfirði hefur verið hætt og hefur útgefandi Jökuls því ákveðið að blaðinu verði hér eftir dreift í Grundarfirði auk Snæfellsbæjar.

Bæjarblaðinu Jökli er dreift með Íslandspósti inn á hvert póstfang í þessum tveimur sveitarfélögum og því eru auglýsendur að fá talsvert meira fyrir peninginn en áður, auglýsingaverð verður óbreytt í Jökli fyrst um sinn.

Þar sem að Jökull er ekki með starfandi blaðamenn á sínum snærum munum blaðið áfram treysta á velvilja bæjarbúa þegar kemur að efnisöflun. Félög og klúbbar eru hvattir til að senda blaðinu stuttar fréttir af starfinu og afskaplega vinsælt er ef lesendur senda blaðinu fréttir. Einnig er hægt að senda blaðinu myndir og einhverjar upplýsingar og starfsmenn Jökuls munu þá sjá um að setja saman fréttina.

Ábendingum um fréttaefni er einnig hægt að koma til blaðsins en netfangið er steinprent@simnet.is, í Grundarfirði mun Gunnar Kristjánsson verða blaðinu innan handar með fréttir og því er hægt að koma ábendingum um fréttir til hans.

Ef einhver af lesendum blaðsins er til í að aðstoða við útgáfu blaðsins með því að vera með fasta pistla um. t.d. sjávarútveg eða önnur mál þá er það vel þegið.

Forsenda fyrir útgáfu blaða sem dreift er frítt inn á hvert heimili er að auglýsendur á svæðinu séu duglegir að nota þjónustu blaðsins, með því að auglýsa í Jökli er nú hægt að ná inn á rúmlega 900 heimili á Snæfellsnesi.

Úr frétt í Jökli 7. október 2010.