Jólahús Grundarfjarðar 2023
Jólahús Grundarfjarðar 2023

Menningarnefnd Grundarfjarðarbæjar fór í sína árlegu „jólahúsa“-leit þann 20. desember sl. og fann jólahúsið 2023.

Á Grundargötu 27, við miðja aðalgötuna, stendur sannkallað jólahús! Með fallegum seríum og fígúrum sem lýsa upp skammdegið og veita okkur birtu og yl á jólahátíðinni. Það eru þau hjónin Þóra Ólöf Óskarsdóttir og Pétur Hraunfjörð sem búa í jólahúsinu að Grundargötu 27. 

Hægt er að lýsa húsinu á þann hátt að það var fallega upplýst, hátíðlegt og kyrrlátt, sannkallaður jólaandi. Rakel Birgisdóttir varaformaður menningarnefndar fór og hitti þau Þóru og Pétur, íbúa hússins, og færði þeim viðurkenningarskjal og konfekt. Þau voru afskaplega ánægð með titilinn og Þóra nefndi að hún væri svo mikið jólabarn og væri ánægð með allar ömmurnar sem koma og taka myndir af barnabörnunum við skreytingarnar. 

 

 

Við óskum eigendum jólahússins innilega til hamingju og færum þeim kærar þakkir fyrir að fegra umhverfið okkar á þennan einstaka, jólalega hátt.