Nú rétt fyrir jól tóku nemendur Grunnskóla Grundarfjarðar þátt í skemmtilegu verkefni sem fólst í að teikna jólamyndir fyrir "Jólakort Grundarfjarðarbæjar 2020".

Alls teiknuðu nemendur 36 myndir og voru þær allar einstaklega jólalegar og fallegar.

Valin var jólakortamynd ársins 2020, en það voru vinirnir Alexander Orri Einarsson og Ari Unnsteinsson í 3. bekk sem eiga vinningsmyndina í ár. Myndin fangar hinn einstaka jólaanda, barnslega gleði og spenning fyrir jólum.

Björg bæjarstjóri heimsótti vinina rétt fyrir hádegi á aðfangadag og færði þeim viðurkenningu Grundarfjarðarbæjar og litla gjöf.
Þeir sögðu að samstarfið hefði gengið vel við að teikna myndina og að þeir hefðu verið alveg ákveðnir í því hvert viðfangsefni jólamyndarinnar hefði átt að vera; jólasveinn með sleða og hreindýr, jólapakkar og tré, snjór og jólastjarnan á himninum - rétt fyrir jól (það sést, því enn eru pakkar í poka jólasveinsins).

Alexander Orri Einarsson (t.v.), Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri og Ari Unnsteinsson (t.h.) á aðfangadag.

Við þökkum þeim félögum sem og öllum öllum nemendunum innilega fyrir þeirra framlag og bendum á að myndirnar þeirra eru til sýnis í 24. glugga aðventudagatalsins. Við gefum þá vísbendingu að hann er í miðbænum. 

Þegar rigningunni slotar er tilvalið að fara í létta jólagöngu með börnunum og skoða 24. gluggann.

Gleðilega jólahátíð!