Jólamót HSH í frjálsum íþróttum var haldið í Stykkishólmi sunnudaginn 9.
desember sl. en keppendur mættu allstaðar af Snæfellsnesi. Rétt tæplega 40
keppendur tóku þátt í mótinu og fengu að lokinni þátttöku sokka sem Krums hafði
merkt með félagsmerki HSH. Mörg persónuleg met litu dagsins ljós og einnig tvö
héraðsmet, sem nú orðið er fremur fátítt að séu bætt. Margrét Helga
Guðmundsdóttir (14 ára) bætti héraðsmetið í langstökki stúlkna innanhúss og fór
4,90 m, en gamla metið var 4,72 m, sem Heiðrún Sigurjónsdóttir átti síðan 1993.
Þá bætti Daníel Emmanuel W. Kwakye (10 ára) héraðsmetið í langstökki án atrennu
innanhúss í flokki 10 ára drengja og stökk 2,25 m, en gamla metið setti Þórður
Kárason, þá 9 ára, er hann stökk 1,97 m árið 1993. Margrét Helga og Daniel eru
bæði úr Grundarfirði. Glæsileg afrek hjá þessum frábæru íþróttakrökkum.