Jólastofa í Sögumiðstöðinni                  Mynd: HJJ

Í Sögumiðstöðinni er búið að setja upp jólaskreytta dagstofu í anda áranna í kringum 1960. Margt af því sem fyrir augu ber vekur upp minningar þessa tíma. Heimagert jólatré og pappírsskraut er eitt af því sem horfið er nú sýnum manna. Þó er eitthvað um að fólk kjósi að hafa jólatrén sín í þessum stíl í dag og þykir það flott. Ef einhverjir eiga muni í fórum sínum frá þessum tíma má alltaf bæta við sýninguna, og má hafa samband við safnstjóra Sögumiðstöðvarinnar, Inga Hans Jónsson. Handverksfólk er einnig með sölubása í Sögumiðstöðinni þar sem heimagert handverk er til sölu.

Sögumiðstöðin er opin alla daga frá 16 - 18 og er ókeypis inn á sýninguna.

Í Bæringsstofu er ljósmyndasýning þar sem má sjá jólaljósmyndir sem Bæring tók á ýmsum uppákomum á aðventunni. Ingi hefur klippt saman myndband sem er samansett úr bæði ljósmyndum og kvikmyndum, þar má m.a. sjá félaga Lionsklúbbs Grundarfjarðar syngja jólalög fyrir utan Verslunina Grund árið 1989.

Grundfirðingar eru hvattir til að gera sér ferð í Sögumiðstöðina og skoða herlegheitin og fá sér kaffi.

Byggt á grein í Vikublaðinu Þey, 9. des 2004.