Tónlistarskóli Grundarfjarðar hélt sína árlegu jólatónleika í sal Fjölbrautarskóla Snæfellinga mánudaginn 14. desember síðastliðinn. Þar spiluðu nemendur jólalög fyrir Grundfirðinga á meðan þeir sýndu hvað þeir höfðu lært um veturinn.

Það er ljóst að faglega er unnið að tónlistarkennslu í Grundarfirði en um 53% nemenda Grunnskóla Grundarfjarðar stunda nám við tónlistarskólann. Þar er kennt á bassa, gítar, píanó, horn, klarinett, kornett, trompet, trommur, ukulele, þverflautu ásamt söng. Það eru fleiri hljóðfæri í boði en þetta er það sem krakkarnir eru að læra á núna. Allir árgangar grunnskólans hafa aðgang að tónlistarnámi og eru þó nokkrir nemendur úr 1. bekk sem stunda tónlistarnám og spiluðu á jólatónleikunum. Það er því ljóst að framtíðin er björt hjá þessum krökkum sem sendu gestina út í glimrandi jólaskapi.