Kærleikskúlan 2006 er komin út og verður fáanleg í Norska húsinu 5. – 19. desember nk. Norska húsið tók Kærleikskúluna til sölu fyrir jólin í fyrra og mun leggja Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið með sama hætti í ár.

 

Kærleikskúlan kemur nú út í fjórða sinn, en eins og áður hefur hvílt leynd yfir því hver sé listamaðurinn og hvernig verk hans lítur út. Að þessu sinni fór frumsýning Kærleikskúlunnar fram í Berlín, en kúlan verður seld þar fyrir jólin. Þetta er í fyrsta sinn sem Kærleikskúlan er seld utan landsteinanna, en það er velviðeigandi að það sé einmitt Þýskaland sem verður fyrir valinu þar sem kúlurnar eru blásnar í þar.

 

Fremstu listamenn þjóðarinnar hafa frá upphafi lagt Styrktarfélaginu lið með list sinni. Fyrsta Kærleikskúlan kom út árið 2003 og reið Erró á vaðið með verkinu 2 MÁLARAR, ári síðar var það Ólafur Elíasson með AUGAÐ, í fyrra var það Rúrí með verkið ÁN UPPHAFS - ÁN ENDIS og í ár er það Gabríela Friðriksdóttir með verkið Salt jarðar.

 

Gabríela segir um verk sitt:

 

„Óteljandi agnir mynda landslag sem breiðir úr sér og þekur jörðina

Þar vaxa áferðarmiklir og kynlegir kvistir

Landslag sem mótar og nærir hin margvíslegu lífsform

og andann sem innan og utan þess býr

Það er lífsvilji sálarinnar og vonin sem mynda samfélög heimsins

Að viðurkenna, varðveita og virða hið skapandi afl

margbreytileikans er krydd lífsins –
SALT JARÐAR“

 

Gabríela Friðriksdóttir er fædd árið 1971 í Reykjavík, stundaði listarnám þar og síðar í Tékklandi. Innsetningar Gabríelu einkennast af frumleika og dirfsku og notar hún ólíkt efnisval og miðla til tjáningar; málverk, skúlptúra, teikningar, tónlist og myndbandsverk. Gabríela hefur unnið og haldið sýningar víða um heim bæði ein og í samstarfi við aðra. Árið 2005 var hún fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum þar sem innsetning hennar Versations Tetralogia vakti mikla athygli. Gabríela hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir listsköpun sína og hefur skapað sér sess sem einn frumlegasti og áhugaverðasti listamaður sinnar kynslóðar.

 

 

Kærleikskúlan verður seld dagana 5. – 19. desember í Norska húsinu í Stykkishólmi.

Norska húsið er opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 14:00 – 18:00 fram að jólum.

Á fimmtudagskvöldum er einnig opið kl. 20:00 – 22:00.