Á þessu fallega og veðursæla sumri er það okkur sönn ánægja að skrifa ykkur nokkrar línur.

Hér hefur verið góð aðsókn það sem af er og þrátt fyrir fækkun erlendra ferðamanna til landsins virðast jafnvel fleiri koma á Snæfellsnesið en í fyrra og hlutfall Íslendinga er svipað og í fyrra. Helsti munurinn er að æ fleiri vita um Sögumiðstöðina og fleiri koma nú inn á sýningarnar. Samstarfsverkefnið „Saga og Jökull“ um menningartengda ferðaþjónustu fyrir börn, laðar að íslenskar fjölskyldur og leikfangasafnið Þórðarbúð er sérstaklega vinsælt.

Í vetur hefur Guðmundur Rúnar Guðmundsson, ljósmyndari unnið við skönnun og flokkun á fleiri ljósmyndum Bærings Cecilssonar auk þess sem lokaritgerð hans til BA prófs í listfræði við Háskóla Íslands nú í vor, fjallaði um ljósmyndir Bærings.Bæringsstofa og Sögumiðstöð eru nú komin á Facebook og á síðu Bæringsstofu er sett inn mynd úr safni Bærings á hverjum degi.

Dagskráin hjá okkur Á góðri stund er svohljóðandi:

Föstudagur 23. júlí

Kl. 20.00 Farið á kostum... og göllum. Sagnameistarinn Ingi Hans æfir sig fyrir Norðurlandamótið.

Aðgangseyrir kr. 1.000.

Kl. 23.00 Vindbelgir á Hlaðinu. Friðjón og félagar þenja nikkurnar.

Laugardagur 24. júlí

Kl. 16.30 Taumur líðandi stundar. Guðmundur Rúnar ljósmyndari og Ingi Hans, fjalla um tíma og endurtekningar í ljósmyndum Bærings Cecilssonar. Aðgangseyrir kr. 1.000.

Sunnudagur 25. júlí

Kl. 11.00 Taumur líðandi stundar. Aðgangseyrir kr. 1.000.

Forsala er á erindið um ljósmyndir Bærings og sagnakvöld Inga Hans, frá kl. 10 á föstudagsmorgninum.

Vinir Sögumiðstöðvar greiða hálft gjald á alla viðburði nema að sjálfsögðu boðsviðburði eins og þennan:

Vinum Sögumiðstöðvar er boðið sérstaklega að koma og hlýða á erindi þeirra

næstkomandi föstudag kl. 15. Meðfylgjandi er boðsmiði, fyrir þig og maka.

Árgjaldið er óbreytt frá síðasta ári, kr. 2.500.