Nú í morgun var vatnsstaða í miðlunargeymi vatnsveitunnar 80% og virðist ljóst að hvatning til íbúa um að spara vatn hafi skilað góðum árangri. Ekki er sýnilegt grugg í vatni frá holum og sérstök vakt Orkuveitustarfsfólks heldur áfram.

 

Hvatning um að fara sparlega með kalda vatnið stendur enn, meðan kalt er í veðri.

 

Upphafleg frétt:

Vegna óvenjulegs tíðarfars er vatnsstaða í vatnsbóli Grundfirðinga á Grund mjög lág og vatnsskortur í bænum. Bæjarbúar eru hvattir til að fara sparlega með vatnið.

Stöðug vöktun er nú á vatnsöfluninni og frekari upplýsingum verður komið til íbúa eftir því sem þær liggja fyrir.

 

Tildrög og úrbætur

Orkuveita Reykjavíkur rekur vatnsveituna í Grundarfirði. Hún sækir vatn í fjórar borholur við bæinn Grund og kuldi og úrkomuleysi hafa lækkað vatnsborðið holunum. Við það að vatnsborðið lækkaði komst loft inn á veitukerfið í gær. Það varð til þess að vart varð við grugg í vatninu. Gruggið er ekki hættulegt og vatnið er hæft til neyslu. Starfsfólk Orkuveitunnar hefur meðal annars verið í sambandi við heilbrigðiseftirlit og bæjaryfirvöld vegna málsins.

Nú er stöðug vakt á vatnsöfluninni og mun það eftirlit leiða í ljós hvort vatnsbólið er að gefa nægilega vel af sér til að sinna þörfum bæjarbúa og fyrirtækja í bænum. Miðlunartankur er við vatnsbólið og hversu mikið gengur á vatnið í honum í dag veitir upplýsingar um hvort afköst vatnsbólsins eru næg. Á meðan það er ekki alveg ljóst eru íbúar beðnir um að fara sparlega með kalda vatnið. Nánari upplýsingum verður komið til íbúa um leið og þær liggja fyrir, væntanlega í fyrramálið.

 

Starfsfólk Orkuveitunnar biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.