Föstudaginn 3. og laugardaginn 4. júní sl. var borað eftir köldu vatni á vatnsverndarsvæðinu við Grundarbotn. Borunin tókst vel, en það var Ræktunarsamband Flóa & Skeiða sem annaðist verkið. Nýja holan var boruð austan við núverandi dæluhús, nær bökkum Grundarár. Sunnudaginn 5. júní sl. var holan dæluprófuð til að kanna afköst hennar og reyndist hún gefa 10 – 15 ltr. á sekúndu.

Þá var einnig dæluprófað upp úr eldri holu á svæðinu sem boruð var fyrir nokkrum árum en aldrei var virkjuð.  Þessi gamla hola reyndist gefa á bilinu 5 – 10 ltr. á sekúndu.

Verið er að skoða þann möguleika að virkja báðar þessar kaldavatnsholur, en með þeim kæmi þetta vatn sem viðbót við núverandi vatnsveitu, sem gæti numið um 15 – 25 ltr. á sekúndu, sem er um þriðjungur til helmingur af því vatnsmagni sem núverandi vatnsveita við Grundarbotn gefur.

 

Þess má að lokum geta að báðar þessar holur sem dæluprófaðar voru sl. sunnudag, gátu gefið mun meira magn en það sem hér er sagt frá, en við of kröftuga dælingu varð niðurdráttur í vatnsyfirborði svæðisins sem þýðir að vatnsborð holunar lækkaði við of mikla dælingu.