Frá undirritun samningsins að Breiðabliki, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðher…
Frá undirritun samningsins að Breiðabliki, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar og formaður stjórnar Svæðisgarðsins Snæfellsness.
Mynd: Helga Hafsteinsdóttir
Í dag var skrifað undir samning um að kanna ávinning þess að Snæfellsnes verði þátttakandi í verkefni UNESCO um manninn og lífhvolfið (e. Man and Biosphere). Það var Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sem undirritaði samning við Svæðisgarðinn Snæfellsnes, sem mun hafa umsjón með verkefninu. 
 
Svæði eins og UNESCO „Man and Biosphere” (MaB) eru með þekktustu vörumerkjum fyrir einstæða náttúru og menningu í heiminum, en fimmtíu ára reynsla liggur fyrir af jákvæðri þróun byggðar á MaB-svæðum. Alls eru 714 MaB-svæði í 129 löndum, þar af liggja 21 svæði í fleiri en einu landi. Ekkert svæði hérlendis hefur enn verið tilnefnt sem Man and Biosphere svæði til Unesco, en nú fer af stað samstarf Snæfellinga um að kanna hvort slíkt sé fýsilegt fyrir samfélögin á Snæfellsnesi.
 

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa lengi lagt ríka áherslu á samstarf og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum samfélagsins. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður af sveitarfélögunum fimm, frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum í atvinnulífi árið 2014. Svæðisgarðurinn er farvegur fyrir samstarf um uppbyggingu byggðar og atvinnu, á grunni nýsköpunar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda, en stefna um það er sett fram í Svæðisskipulagi Snæfellsness 2014-2026. Snæfellsnes hefur hlotið umhverfisvottun EarthCheck fyrir samfélög og starfað samkvæmt því í rúman áratug. Talið er líklegt að þessar grunnstoðir falli nú þegar að verulegu leyti að þeim viðmiðum sem UNESCO „Man and Biosphere” setur. 

MaB hefur að markmiði að þróa og styrkja hvorutveggja í senn, lífsskilyrði fólks á afmörkuðu svæði og náttúrulegt umhverfi þess. Lögð er áhersla á nýsköpun; að fara nýstárlegar leiðir til að bæta efnahag fólks á svæðinu, í sátt við samfélag og umhverfi, byggt á traustum vísindalegum grunni.  

Skrifað var undir samning um þessa rýni að Breiðabliki í dag, 24. febrúar 2021. Verkefninu á að ljúka í vor. 

 
Hér má sjá yfirlit yfir Man and Biosphere svæði hjá Unesco. 
Hér má sjá nánar um verkefnið í frétt á vef Stjórnarráðsins
Vefur Svæðisgarðsins Snæfellsness er snaefellsnes.is