Harpa Dögg og Heiður från Boänge
Harpa Dögg og Heiður från Boänge

Íþróttamaður Grundarfjarðar 2021, hún Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir, keppti með landsliðinu í hestaíþróttum á dögunum. Við báðum hana um að senda okkur nokkur orð um keppnina og ferðalagið og hér kemur skemmtilegur pistill frá henni: 

Þakklæti er mér efst í huga eftir Norðurlandamót sem haldið var á Álandseyjum dagana 9. - 14. ágúst sl. Það er frábær reynsla sem maður öðlast við að taka þátt í svona móti. Að fara í bláa jakkann og keppa fyrir Íslands hönd á móti sem þessu er alveg magnað. Maður lærir svo margt nýtt og að fá að vera hluti af þessum hópi sem fór þarna út hefur verið mér svo lærdómsríkt.

Að keppa í hestamennsku á erlendri grundu er svolítið öðurvísi en hér heima á Íslandi. T.d. vorum við flest á lánshestum sem við þekktum lítið því ef við hefðum farið með okkar hross út þá eiga þau ekki afturkvæmt heim til Íslands. Þetta reynir á góð samskipti við hesteigendur og ég var svo heppin að fá lánaðan hest sem heitir "Heiður från Boänge" hjá frábærum systrum, þeim Malin Olsson og Linda Bendiksson og þær vildu allt fyrir mig gera. Það var rosalega dýrmætt fyrir mig að þær hafi treyst mér fyrir hestinum sínum.

Við Heiður kepptum í tölti og fjórgangi og ég komst í B-úrslit í töltinu og endaði þar í 2. sæti sem gerir 7. sæti í töltkeppninni í ungmennaflokki en því miður þá gekk ekki nógu vel í fjórgangnum, en það fer víst allt í reynslubankann.

Íslendingunum gekk vel á mótinu og áttum við þrjá Norðurlandameistara auk þess sem við náðum flest að komast í úrslit í okkar greinum, sem verður að teljast frábær árangur þar sem við keppum flest á lánshestum á meðan aðrar þjóðir koma með sín hross sem þau þekkja vel.

Þátttaka í svona verkefni er gríðalega kostnaðarsöm og ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem studdu mig í þessu verkefni kærlega fyrir.

Kv. Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir

Hér er hlekkur á frétt frá Landssambandi hestamanna