Í þessari viku stendur yfir svokölluð kjördæmavika hjá þingmönnum.  Þessa viku nota þingmennirnir m.a. til þess að halda fundi með fulltrúum sveitarstjórna í kjördæmunum og fá upplýsingar um helstu verkefni og til þess að gefa sveitarstjórnum tækifæri til þess að ræða við sem flesta þingmenn kjördæmisins í einu um hagsmunamál sveitarfélaganna.

 

Fundur var haldinn með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og fulltrúum sveitarstjórna í gamla Vesturlandskjördæmi þriðjudaginn 24. október sl. í Borgarnesi .  Af hálfu Grundarfjarðarbæjar sóttu fundinn Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri.

 

Rætt var við þingmennina um nokkur atriði sem tengjast fjárlagagerð og nýrri Vegaáætlun.  Meðal annars var minnt á hafnarframkvæmdirnar í Grundarfirði og nauðsyn þess að ljúka þeim eins og áætlað hefur verið. Sömuleiðis var t.d. rætt um veginn að Suður-Bár og nauðsyn þess að hraða sem mest undirbúningi og framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á hann (áætlað að ljúki 2008).  Öll sveitarfélögin lögðu þunga áherslu á að brýnt er að breyta tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.  Núverandi tekjuskipting er sveitarfélögum afar óhagstæð og tóku sumir þingmannanna undir það.  Fjárlagafrumvarpið er til meðferðar í þinginu þessar vikurnar og þær upplýsingar sem þingmennirnir fara með af fundum með sveitarstjórnum gagnast þeim við ákvörðunartökur sem tengjast fjárlögunum.