Dagana 15. og 16. janúar var haldinn vinnufundur á Hótel Framnesi. Tilefnið var verkefnið Komdu í land sem skipulagt er af Útflutningsráði, Ferðamálastofu og Cruise Iceland samtökunum. Markmið þess er að efla byggðarlög sem taka á móti skemmtiferðaskipum, sérstaklega í að byggja upp aukna þjónustu fyrir gesti og áhafnir skemmtiferðaskipa. Mjög mikill áhugi var á verkefninu hér í Grundarfirði og mættu flestir sem málið varða til leiks. Það var mikill kraftur í fundarmönnum og margar skemmtilegar hugmyndir voru lagðar fram. Nú á næstu dögum verður gerð samantekt vinnufundarins og í framhaldi verður unnið áfram að verkefninu.

Það er hægt að gera ráð fyrir því að nú í sumar verði töluvert meiri gróska í þjónustu hér í tengslum við komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar. Nú þegar hafa 12 skip verið bókuð og hægt að gera ráð fyrir að þau verði stærri að meðaltali en þau sem heimsóttu okkur á síðasta ári. Komur skemmtiferðaskipa fela í sér tækifæri fyrir Grundarfjörð og Snæfellsnes allt. Verkefnið Komdu í land snýr einmitt að því að auka möguleikana á því að nýta þau tækifæri.