Mynd: Alicja Chajewska
Mynd: Alicja Chajewska

Let´s come together

Verkefnið „Let´s come together / Komum saman“ var stofnað til að styðja við fjölmenningarsamfélag í Grundarfirði eða með öðrum orðum, til að auka samskipti fólks af ólíkum uppruna sem er búsett á svæðinu. 

Undanfarin ár hefur færst í vöxt að til Grundarfjarðar flytji fólk til þess að vinna um lengri eða skemmri tíma en einnig hefur það lengi verið svo að erlendir ríkisborgarar hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt, byggt hér upp heimili og fjölskyldu og auðgað menningu og samfélag.

Verkefninu er ætlað að bjóða heimamönnum og fólki af erlendum uppruna tækifæri til að kynnast betur. Ólíkur bakgrunnur og fjölbreytileiki er kjarninn í verkefninu, sem miðar að því að skapa vettvang til að deila hæfileikum, færni og áhugamálum með öðrum, skemmta sér og gera hluti saman.

Markmiðið er að auka sköpunargáfu og hugvit, sem leiðir vonandi til nýrrar grasrótar íbúa svæðisins á sviði menningar, heilbrigðis og lista, auk umhverfisverndar.

Upphafsmaður verkefnisins er Alicja Chajewska en hún á að baki margra ára reynslu við vinnu svipaðra verkefna, t.d. Evrópuverkefnis. Auk hennar stendur Ildi ehf. að verkefninu, en Sigurborg Kr. Hannesdóttir á einnig að baki langa reynslu við fjölbreytt verkefni.  Grundarfjarðarbær og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes eru samstarfsaðilar í verkefninu og Ingi Hans Jónsson hjá Sögustofunni kemur einnig að því. 

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands, Grundarfjarðarbæ, Svæðisgarðinum Snæfellsnesi, Ildi og Sögustofunni.

Stofnaður hefur verið Facebook-hópur fyrir verkefnið og var fyrsti fundurinn haldinn 8. mars síðastliðinn í Sögumiðstöðinni.
Fundurinn var á ensku og voru þátttakendur um 25 frá 7 þjóðlöndum. Stefnt er að því að næsti fundur verði haldinn á pólsku og verður hann með svipuðu sniði.

Margt fróðlegt og skemmtilegt kom fram á fundinum, m.a. að flesta langar til að taka þátt í samfélaginu og gefa af sér. Fólk langar að kynnast “innfæddum” en veit ekki alltaf hvernig á að fara að því. Mikill áhugi var á því að hittast reglulega og var stofnaður þriggja manna hópur til að sjá um "hittinga" í Sögumiðstöðinni næstu ca. tvo mánuðina, líklega að kvöldi til. Markmiðið er að gera eitthvað skemmtilegt saman; spila, spjalla, fræðast og kynnast fleirum. Mikill áhugi er innan hópsins til að læra betur íslensku og var unnið að lausn á því.  

Næsti fundur, sem fram fer á pólsku, verður auglýstur nánar síðar. Ennfremur samverustundir í Sögumiðstöð, sem ákveðið var að halda reglulega næstu vikurnar. Verið öll velkomin! 

Facebook-hóp verkefnins má finna hér.