Af vef Skessuhorns.

Veitingastaðurinn Krákan í Grundarfirði fékk óvæntan glaðning á dögunum þegar eigendur staðarins, hjónin Halla Elimarsdóttir og Friðfinnur Friðfinnsson fengu bréf frá fyrirtækinu The Rough Guide To Iceland þar sem þeim var veitt viðurkenning fyrir matinn sinn. Fyrirtækið gefur út um 300 blöð um ferða- og veitingastaði víða um heiminn og aðeins þau fyrirtæki sem standa upp úr fá umrædda viðurkenningu.  „Við vissum ekkert af þessum manni sem kom frá þeim og munum ekki einu sinni eftir honum. Hann var hér eins og hver annað ferðamaður,“ sagði Halla í samtali við Skessuhorn og bætti jafnframt við að í bréfinu sem þau fengu hafi verið greint frá því að þetta væri einn af hans uppáhalds veitingastöðum.

Þau hjónin Friðifinnur og Halla hafa rekið Kráuna í 14 ár og fengið nokkrar viðurkenningar fyrir matreiðslu sína. Þau segja aukningu gesta stöðuga á milli ára og í sumar hafi verið meira en nóg að gera. Flestir erlendir ferðamenn sem koma á Krákuna séu frá Hollandi og Þýskalandi en einnig séu heimamenn duglegir að nýta sér þjónustu þeirra. Aðspurð hvaða matur sé vinsælastur segja þau hjón að íslenska lambakjötið sé ávallt vinsælt og einnig standi fiskurinn alltaf fyrir sínu og sé hann sérstaklega vinsæll meðal erlendra gesta. „Sem dæmi verkum við allan lax sjálf. Reykta laxinn reykjum við upp á gamla mátann í kofa og graflaxinn gerum við einnig. Svo eru koníaksmarineraðar kótilettur mjög vinsælar. Við eldum allan mat sjálf og hleypum engum öðrum í okkar eldhús,“ sögðu þessi samhentu hjón einum rómi.

Frétt af vef Skessuhorns.