Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar sendir íbúum Grindavíkur hlýjar kveðjur vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi í tengslum við jarðhræringarnar á Reykjanesskaga. Hugur okkar er hjá ykkur og vonin um að yfirstandandi hræringar valdi sem minnstum skaða. 

Bæjarstjórn, í samvinnu við stjórnendur stofnana bæjarins, býður fram þjónustu og aðstoð við Grindvíkinga og við bæjarstjórn Grindavíkur, eftir því sem við getum orðið að liði í þeim stóru óvissuverkefnum sem framundan eru.

  • Börn og ungmenni, sem koma til tímabundinnar dvalar í Grundarfirði, bjóðum við velkomin í grunnskólann og fimm ára leikskóladeildina Eldhamra, sem rekin er undir grunnskólanum. Beint samband má hafa við Sigurð skólastjóra í sigurdur@gfb.is eða í símanúmer grunnskólans 430 8555. 
  • Ungmennafélag Grundarfjarðar hafði strax samband og bað okkur um að koma á framfæri boði til grindvískra barna og ungmenna, sem hér kunna að dvelja, um að taka gjaldfrjálst þátt í íþróttastarfi á vegum félagsins. Hafa má samband í netfangið umfgrund@gmail.com
  • Að Grundargötu 30 er skrifstofuaðstaða í samvinnurými sem bærinn rekur og þar eru 4-5 laus skrifborð, netsamband, prentari o.fl. Fleiri borð er hægt að setja upp ef þarf. 
  • Heilsuefling 60+ býður fólk hjartanlega velkomið að vera með í tímum, sem eru fjórum sinnum í viku. 

Til að fá upplýsingar um þjónustu Grundarfjarðarbæjar bendum við á netfang bæjarins grundarfjordur@grundarfjordur.is og síma 430-8500 á opnunartíma. Einnig má hringja utan afgreiðslutíma í síma 898-6605 og hafa samband í netfang bæjarstjóra bjorg@grundarfjordur.is

Grundfirðingum sem vilja bjóða laust íbúðarhúsnæði er bent á að skrá það á sérstaka síðu sem Rauði kross Íslands heldur utan um, sjá slóð hér

(Frétt uppfærð sunnudag 12. nóv. 2023 kl. 19:00)