Stökuseiður nefndist skemmtun sem haldin var 6. nóvember sl. á menningarhátíð Grundfirðinga, Rökkurdögum. Þá heimsóttu okkur góðir gestir, hagyrðingar víða af landinu, og seiddu fram margar góðar stökur. Þessar um Kirkjufellið voru kveðnar af Guðríði B. Helgadóttur úr Blöndudalnum, sem er 83 ára gömul.   

Krýnd af sólar eldi og ís

öll þín dulmögn skína.

Kirkjufell! Þér krýp og kýs

kveðju í lotning sína.

 

Eitt og sér við öldunið

og ótæpt gnauðið vinda

haggast ei né hættir við

hlíf og skjól að mynda.

 

Gott að eiga í gleði vin

er gamanmálin sendir.

En meira um vert þá veröldin

af viðmótskulda bendir.

 

Hvað sem lætur líf í té

leiðir opnast kunnar

heim á leið í helgust vé

að hjarta náttúrunnar.

Að sögn hafði Guðríður unnið hjá Guðmundi Runólfssyni fyrir 50 árum í nokkrar vikur sem ráðskona í verbúð og var mjög kært að koma og sjá Kirkjufellið.