Eins og víða á landinu tóku konur í Grundarfirði sig saman og lögðu niður vinnu kl. 14.25 í gær, á kvennafrídaginn. Margar þeirra komu saman á Kaffi 59  og áttu notalega stund saman.  Kaffi 59 bauð upp á kaffi og nýbakaðar kleinur. Björg Ágústsdóttir rifjaði upp tilkomu kvennafrídagsins og síðan var gerð heiðarleg tilraun til að syngja lagið „Áfram stelpur“. Að endingu flutti Elna Bárðarson hjónabandsvísur eftir Árna heitinn Helgason frá Stykkishólmi. Gerði hún það með tilþrifum og uppskar mikið lófatak fyrir. Þess má geta að Elna er 88 ára gömul og býr á Dvalarheimilinu Fellaskjóli. Að samverustundinni lokinni héldu konurnar út í nýfallinn snjóinn, en þessum fyrsta snjó vetrarins hafði kyngt niður í stafalogni meðan á samverustundinni stóð.

Myndir