Í gær, fimmtudaginn 2. nóvember, stóð íþrótta- og tómstundanefnd fyrir opnum kynningarfundi á félagsstarfi unglinga hér í Grundarfirði. Fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Eden sögðu frá vetrarstarfinu og því sem væri framundan. Þóra Margrét Birgisdóttir, forvarnarfulltrúi Snæfellinga, fór yfir þau verkefni sem hún hefur staðið fyrir í forvarnarmálum og kynnti það sem er á döfinni í vetur. Hún sagði einnig frá Listahátíðinni Berserkur 2006 sem haldinn var í sumar.

UMFG kynnti þær greinar sem í boði eru fyrir unglinga í 8. – 10. bekk, frjálsar íþróttir, blak og fótbolta. Fulltrúar úr hverri íþróttagrein sögðu frá starfinu.

Að lokum fór Elsa Björnsdóttir yfir vetrarstarfið hjá unglingadeildinni Pjakk, en starfið hefst í næstu viku.

 

Unglingarnir stóðu sig með prýði við kynningar sínar og er þeim sérstaklega þakkað fyrir sitt framlag. Um 40 manns mættu á fundinn en færri foreldrar mættu en vonast hafði verið eftir!

 

Í framhaldinu stefnir íþrótta- og tómstundanefnd á að útbúa og birta yfirlit yfir allt það félagsstarf sem í boði er fyrir unglinga í Grundarfirði.