Tveir fulltrúar úr Grunnskóla Grundarfjarðar tóku þátt í Landsþingi ungs fólks, sem haldið var í Reykjavík laugardaginn 5. apríl sl. á vegum SAMFÉS, sem eru fagsamtök félagsmiðstöðva og æskulýðsskrifstofa á Íslandi.

Félagsmiðstöðin okkar Grundfirðinga er aðili að SAMFÉS.

Til að líta inn á heimasíðu SAMFÉS má smella hér.

Fulltrúar okkar Grundfirðinga á landsþinginu voru þau Atli Freyr Friðriksson og Ingibjörg Bergvinsdóttir úr 10. bekk, en þau fóru í fylgd Sólrúnar Guðjónsdóttur sem er leiðbeinandi í Grunnskólanum og hefur umsjón með félagsstarfinu þar.

Ferðasaga þeirra birtist fer hér á eftir. Grundarfjarðarbær styrkti þau til fararinnar og vil ég undirrituð fyrir hönd bæjarins þakka þeim kærlega fyrir sitt framlag og hve þau stóðu sig vel. Við erum stolt af ykkur!

Björg Ág. bæjarstjóri

Ferðasaga Grundfirðinganna

Klukkan hálf sjö að morgni laugardagsins 5. apríl sl. lögðum við, Atli, Ingibjörg og Sólrún af stað til Reykjavíkur, í rigningu og roki, til að sitja Landsþing ungs fólks. 

Við vorum hálf kvíðin þar sem við vissum lítið út í hvað við vorum að fara og um hvað átti að ræða. Dagskráin hljóðaði upp á kynningu, umræðuhópa og tillögugerð sem skila ætti til ráðamanna þjóðarinnar.

Við komum tímanlega að félagsmiðstöðinni Miðbergi, þar sem þingið skyldi haldið, og litum aðeins á húsakynnin áður en þingið hófst.  Það var ekki laust við dálitla öfund hjá okkur þegar við sáum hversu glæsileg félagsmiðstöðin var, margir salir og meira að segja á tveimur hæðum. 

Klukkan 9 hófst svo þingið, með kynningu á þeim verkefnum sem framundan voru og tilgangi þingsins.  Félagsmiðstöðvum þeim sem eru aðilar að SAMFÉS gafst kostur á að senda tvo fulltrúa á þingið, en við vorum þau einu sem fórum af Nesinu. Að lokinni kynningu var okkur skipt niður í hópa og var þess gætt að í hverjum hópi væri einn fulltrúi frá Miðbergi, sem stjórnaði umræðum, einn fulltrúi af höfuðborgarsvæðinu og svo fulltrúar hinna ýmsu félagsmiðstöðva landsins. Að sjálfsögðu vorum við sett í sitthvorn hópinn, svo við hefðum meiri möguleika á að kynnast öðrum unglingum.

Hóparnir ræddu um forvarnir ýmiskonar og voru flestir sammmála um að vel væri staðið að þeim hvað varðaði eiturlyf, tóbak og alnæmi.  Ósamræmi í aldurslöggjöf var einnig rætt og var hópurinn sammála því að það þyrfti að vera meira samræmi í henni. Hvenær erum við fullorðin og hvenær ekki? Við erum sjálfráða 18 ára, en megum ekki fara á vínveitingastað, né kaupa áfengi. Við erum tekin í fullorðinna manna tölu 14 ára, en erum samt ennþá börn. Við byrjum að borga skatt af launum okkar 16 ára, en megum ekki ráðstafa tekjunum fyrr en 18, og þar fram eftir götunum. Við erum ekki að segja að við viljum kaupa brennivín 14 eða 16 eða jafnvel 18, við viljum bara sjá eitthvað samræmi í öllu þessu aldursdæmi.

Annað sem brann mjög á vörum allra hópa var skortur á góðri kynfræðslu í skólum. Með almennri kynfræðslu erum við að tala um fræðslu um aðra kynsjúkdóma en alnæmi, kynningu á helstu getnaðarvörnum og almennri umræðu um kynlíf, með öllu því sem við á. Það hefur mjög oft verið láta nægja að segja að maður geti orðið óléttur eða fengið kynsjúkdóm ef maður byrjar að sofa hjá of snemma, en hlutirnir ekki útskýrðir nánar.  Reyndar kom fram hjá krökkunum frá Akureyri að þessari fræðslu væri mjög vel sinnt þar og vissu þau meira að segja hvernig hettan lítur út. Hvað er hettan???

Að loknum formlegum umræðum fóru fulltrúarnir að spjalla saman og bera saman félagsmiðstöðvar sínar og þá rann nú öfundin okkar, sem fyrr er getið, fljótt af okkur. Við vorum fljót að komast að því að við erum mjög vel stödd hér í Grundarfirði, eigum sjónvarp, videó, diskókúlu, billjardborð, fótboltaspil og þokkalegar græjur, svo fátt eitt sé talið. Því miður eru til þó nokkrar félagsmiðstöðvar sem telja sig vel settar þar sem þær hafa úr að moða þaki yfir höfuðið, sófasetti og nokkrum stólum. Auðvitað vildum við hafa aðstöðu til myndlistar, ljósmyndunar, stuttmyndagerðar ofl.ofl.ofl., en erum bara nokkuð sátt við stöðu okkar í dag. Við vitum að allt kostar þetta peninga og að félagsmiðstöðin okkar er ung ennþá.

En svo við víkjum okkur aftur að þinginu, þá lauk því með því að við kynntum niðustöður umræðuhópanna hvort fyrir öðru og einnig fyrir heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra sem allir sáu sér fært að mæta og hlýða á tillögur okkar.

Með þessari greinargerð viljum við þakka kærlega fyrir þann fjárhagslega styrk og þá tiltrú sem okkur var sýnd með því að senda okkur á þetta Landsþing, sem ekki aðeins gaf okkur tækifæri á að kynnast öðrum unglingum og sjónarmiðum, heldur sannfærði okkur ennþá betur um það hversu vel við búum hér í Grundarfirði.

Takk fyrir okkur

Ingibjörg, Atli og Sólrún