Ágætu íbúar!

 

Eins og kunnugt er hafa sveitarfélögin á Snæfellsnesi sett sér sameiginlega umhverfisstefnu og verið í vottunarferli Green Globe 21. Þar er áhersla lögð á sjálfbæra þróun, en hún hefur verið skilgreind sem: ,,Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að stofna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta sínum þörfum.”

           

 

           Árlega þurfa sveitarfélögin að mæta ákveðnum viðmiðum Green Globe 21 og eru jafnframt hvött til að bæta mælingar sínar ár frá ári. Eitt af markmiðum sveitarfélaganna er að reyna að draga úr ,,lausagangi bifreiða” og tileyrandi mengun, enda eru gróðurhúsaáhrif í lofthjúpi jarðar helsta umhverfisvandamál heimsins. Við ýmis tækifæri hefur verið biðlað til íbúa um að skilja aldrei bíla eða önnur vélknúin vinnutæki eftir í lausagangi, nema þegar brýn nauðsyn krefur.

            Á síðasta ári settu allar stofnanir Grundarfjarðarbæjar upp skilti og/eða merkingar þar sem hvatt er til þessa, enda var það í samræmi við verkefnaáætlun sveitarfélaganna skv. Green Globe. Mörg fyrirtæki í bænum hafa einnig gert hið sama.

            Sá algengi misskilningur að bílvél mengi meira ef drepið er á henni og hún endurræst á ekki við rök að styðjast, nema slíkt sé gert á innan við 10 sekúndum. Þetta er lítið atriði og mest um vert að venja sig á það. Gott dæmi um slíkt er t.d. við Leikskólann Sólvelli. Þar drepur fólk undantekningarlaust á bílum sínum þegar staldrað er við, enda hafa starfsmenn (og nemendur) leikskólans verið duglegir að hamra á þessum skilaboðum!

             

Leggjumst nú öll á eitt til að gera gott sveitarfélag enn betra og til að leggja okkar af mörkum!

 

Starfsmenn Grundarfjarðarbæjar – framkvæmdaráð Green Globe