Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig kosningar til sveitarstjórnar skulu fara fram. Meðfylgjandi er útdráttur úr þessum leiðbeiningum sem sjá má í heild sinni hér.

 

Þegar kjósandi hefur gert grein fyrir sér fær hann afhentan einn kjörseðil. Ath. kjósandi getur þurft að gera grein fyrir sér með því að sýna persónuskilríki með mynd.

 

Kjósandi fer með seðilinn inn í kjörklefa og að borði því er þar stendur. Á borðinu skulu ekki vera færri en tvö venjuleg dökk ritblý. Þar skal einnig vera blindraspjald sem auðveldar sjóndöprum og blindum að kjósa.

 

Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.

 

Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.

 

Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.

 

Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem hér segir.

 

Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.

 

Þegar kjósandi hefur gengið frá seðlinum inni í kjörklefanum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, svo letrið snúi inn, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum, stingur sjálfur seðlinum í kassann og gætir þess að enginn sjái hvað stendur á seðlinum. Þess gætir hann engu síður þótt hann skili auðum seðli.

 

Ef kjósanda verður á að eyðileggja kjörseðil með því að láta sjá hvað á honum er, með því að setja skakkt kjörmerki á seðil eða seðill krotast hjá honum af vangá á hann rétt á að fá nýjan kjörseðil. Skal hann þá afhenda kjörstjórninni hinn fyrri seðil.

 

Kjósandi sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar getur greitt atkvæði á kjörfundi og kemur utankjörfundarseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.