Vikuna 9.–13. maí er vorskóli  í Grunnskóla Grundarfjarðar fyrir elstu nemendur leikskólans. Nemendur fara ásamt kennara úr leikskólanum daglega í grunnskólann og eru þar frá kl. 13:00-15:00 þar sem þau kynnast grunnskólastarfinu og þeim kennurum sem koma til með að kenna þeim í haust.

 

Vorskólinn er liður í að skapa samfellu á milli skólastiganna. Yfir veturinn er unnið að því að brúa bilið á milli skólastiganna með gagnkvæmum heimsóknum  til að einfalda skiptin úr leikskóla yfir í grunnskóla.

 

Kolbrún Jónsdóttir leikskólakennari í leikskólanum skipuleggur vorskólann í samvinnu við kennara í grunnskólanum auk þes sem hún er tengiliður leikskólans í samstarfi við grunnskólann. Þess má  einnig geta að Kolbrún er í framhaldsnámi frá KHÍ í námi og kennslu ungra barna sem er með áherslu á nemendur frá 5 – 8 ára aldurs.  

Svanhvít ásamt elstu börnum leikskólans

Mánudaginn 9. maí fengu þessir verðandi 1. bekkingar góða gjöf frá Véla- og tækjaleigu Kjartans. Svanhvít Guðmundsdóttir  kom og færði öllum elstu nemendum leikskólans skólatösku að gjöf. Búið var að sauma nafn þeirra á töskurnar. Kemur þetta að góðum notum þegar þau byrja í 1. bekk grunnskólans  í haust.