91 stuttmynd voru valdar til sýningar á Alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni Nothern Wave í ár sem verður haldin í fyrsta sinn í nóvember að þessu sinni en síðustu fimm árin hefur hátíðin farið fram í mars. Ástæðan er mikil fjölgun ferðamanna á svæðinu á vormánuðum sökum háhyrninga sem hafa gert sig heimakæra í firðinum á þessum tíma. Engir hvalir ættu að vera sýnilegir þann 15. nóvember næstkomandi en í staðinn verða sýndar fjölþjóðlegar stuttmyndir í samkomuhúsi Grundarfjarðar sem ættu að laða að annars konar ferðamenn.

Hátíðin í ár bíður í raun upp á heimsreisu þar sem myndirnar verða flokkaðar eftir heimshlutum en aldrei fyrr hefur verið jafn fjölbreitt úrval þjóðerna með mynd á hátíðinni. Myndirnar eru margar hverjar hápólítiskar og ágætis speglun á ástandið í hverju landi fyrir sig. Töluvert er um kvenleikstjóra á hátíðinni í ár og áhugavert að sjá hvert stefnir en stuttmyndaformið er byrjunarreitur leikstjóra framtíðarinnar og má því segja að myndirnar gefi vísbendingu um það sem koma skal.

Fjöldi verðlaunamynda er á hátíðinni m.a. tvær stuttmyndir sem sýndar voru á Cannes í ár, hin íslenska Hvalfjörður og hin íranska “More than two hours” sem fjallar um þá erfiðleika sem ungt og ógift par stendur frammi fyrir þegar að það þarf læknisaðstoð upp á líf og dauða.

Á hátíðinni má einnig finna gæðamyndir frá framandi löndum eins og Kazaksthan, Íran, Afganistan, Kyrgyzstan og Uzbekistan. Verðlaunamyndin Sandiq frá Uzbekistan sem leikstýrt er af hinni ungu Sabina Sagadeev segir frá sambandi ömmu og barnabarni og gefur góðar innsýn inn í hefðir tengdar dauðanum í Uzbekistan. Önnur áhugaverð mynd er finnsk-rússneska heimildarmyndin Rakastan sinua kyyneliin (Cry Tears of Happiness) sem fjallar um útópískar og þjóðernissinnaðar ungliðahreyfingarbúðir Pútíns í Rússlandi, þar sem rússnesk ungmenni koma saman og dansa edrú við teknótónlist á milli þess sem þau dásama leiðtoga sinn.

Einnig verður boðið upp á fjölbreytt úrval hreyfimynda og teiknimynda á hátíðinni í ár og í fyrsta sinn býður hátíðin upp á ókeypis vinnusmiðju með Margaret Glover, bandarískum handritshöfund og framleiðanda sem starfar við London Film School og situr í dómnefnd hátíðarinnar í ár. Aðrir meðlimir dómnefndar eru leikstjórarnir Silja Hauksdóttir og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson en í dómnefnd tónlistarmyndbanda eru þeir Jim Beckmann og Benedikt Reynisson. Fastlir liðir eins og venjulega eru svo viðburðir á borð við tónleika, ball og hina vinsælu fiskiréttakeppni sem að landsliðskokkurinn Hrefna Sætran dæmir í. Þónokkur fjöldi erlendra leikstjóra s,em eiga mynd á hátíðinni, hafa boðað komu sína á hátíðina í ár, flestir frá rússlandi og austur evrópu. Enginn ætti þ.a.l. að vera svikinn af vetrarhelgi í Grundarfirði þrátt fyrir fjarveru háhyrninga.