Nemendur 1.-7. bekkjar grunnskólans héldu árshátíð sína í síðustu viku og buðu upp á skemmtilega leikþætti. Árshátíðin var vel sótt og augljóst að áhorfendur voru hæstánægðir með skemmtunina.

Leikritið um Pétur Pan var sett upp af mikilli innlifun og feðgarnir Leifur heppni og Eiríkur rauði sigldu inn í grundfirskan nútíma með athyglisverðum afleiðingum. Þá var tilgangur páskahátíðarinnar rifjaður upp og guðspjallið sett inn í nútímaaðstæður þar sem Júdas sveik Jesú í gegnum "SnapChat". Það er auðvitað engin árshátíð nemenda haldin án þess að gera almennilegt grín að kennurunum sínum. Kennararnir tóku virkan þátt í gríninu og sungu Gleðibankann, hver með sínu nefi. Loks mátti sjá myndband frá upprennandi vísindamönnum sem sýndu kúnstir sínar með skemmtilegum vísindatilraunum.

Vel heppnuð og stórskemmtileg árshátíð hjá þessum flottu nemendum.