Gestir á málþinginu.
Er líf án þorsksins? var yfirskrift málþings um atvinnumál sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Snæfellsbær stóðu fyrir í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á föstudag. Tilefni fundarins var breytt staða í atvinnumálum á Vesturlandi, þá sérstaklega Snæfellsnesi, eftir skerðingu þorskkvótans við upphaf síðasta fiskveiðiárs. Síðustu fréttir um lélega árganga og nýliðun í stofninum benda til þess að samdrátturinn í þorskveiðum sé kominn til að vera, að minnsta kosti næstu árin. Snæfellsnes hefur verið sérstaklega háð þorskaflanum og sjávarútveginum, enda vægi sjávarútvegs hvorki meira né minna en 70% af verðmætasköpun atvinnulífsins á svæðinu.

Frétt á vef Skessuhorns 21. apríl 2008.

Væntanlega hefur fundarfólk ekki búist við að þarna kæmu fram töfralausnir á vandanum, en engu að síður kom ýmislegt athyglisvert fram og umræður voru bæði gagnlegar og á köflum skemmtilegar. Málþingið byggði á stuttum framsögum og fyrirlestrum, þar sem drepið var á marga þætti, flóruna í grunnatvinnuvegunum, nema úr landbúnaðinum. Fyrirspurnum var síðan safnað saman og málþinginu lauk með pallborðsumræðum þar sem skipst var hressilega á skoðunum.

Ítarlega er fjallað um málþingið í næsta tölublaði Skessuhorns sem kemur út á miðvikudag.