Skessuhorn 2. mars 2010

Grundarfjörður er nú fullur af síld og bæst hefur í dag frá degi. Heimildir Skessuhorns herma að ef miðað sé við fyrstu þykktarmælingar sé ekki undir hálfri milljón tonn af síld þar núna, sem er athyglisvert í ljósi þess að aðeins hafa verið leyfðar veiðar á 47.000 tonnum síðan í haust. Síldartorfurnar eru mjög þéttar og ná frá botni upp á yfirborðið og síldargangan nær alveg inn í Kolgrafarfjörð. Fuglinn tínir síld af sjónum og háhyrningar elta síldina upp undir fjörur. Ekkert má veiða því kvótinn er búinn og fiskifræðingar hafa haft vara á sér vegna sýkingar í síldinni.

Hafrannsóknaskipið Dröfn hefur síðustu daga verið við mælingar í Breiðafirði og hjá Guðmundi Runólfssyni hf. í Grundarfirði voru í fyrradag fryst sex tonn af síld sem Dröfnin tók í land sem sýni. Runólfur Guðmundsson útgerðarmaður og fiskverkandi segir þetta góða síld. “Mér sýndist samt talsvert af smærri síld innan um en svo voru þarna alveg upp í risasíldar, þannig að þetta virðast nokkrir árgangar. Ég gat ekki séð neina sýkingu í þessari síld enda er þetta bara bull að veiða ekki út af sýkingu. Það sem veitt var í Breiðafirði eftir áramót fór allt í frystingu og menn þurftu í mesta lagi að skera einhverja smá bletti af flökunum. Maður sér heldur enga dauða síld á fjörum núna þannig að ekki virðist hún vera að drepast úr sýkingunni.”

 

Runólfur segir göngumynstrið hjá síldinni svipað og í fyrra nema nú sé hún um tuttugu dögum seinna inni í Grundarfirði. “Hún hvarf innan úr Hólmi og fór eitthvað út í álinn en síðan hefur hún áttað sig á því að það er ekki komið vor ennþá og streymir nú hingað inn. Það er ekki öll síldin komin og fleiri göngur á leiðinni. Þegar hún hvarf héðan í fyrra gerðist það á einum degi þannig að ef menn ætla að veiða hana meðan hún er svona þétt þá er ekki eftir neinu að bíða með það. Hún er vaðandi hérna, enda getur hún ekki annað en leitað upp á yfirborðið þegar torfurnar ná í botn, fuglinn tekur hana svo í yfirborðinu,” sagði Runólfur.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gat í samtali við Skessuhorn í morgun ekki svarað því hvort gefinn yrði út aukinn síldarkvóti. Vísaði hann þar til Hafrannsóknastofnunar. Sagði Jón að stofnmælingar hefðu staðið yfir að undanförnu en varðist fregna um útgáfu viðbótarkvóta. Á yfirstandandi vertíð hefur verið gefinn út kvóti til veiða á 47.000 tonnum af síld. Fyrst var gefinn út 15 þúsunda tonna rannsóknakvóti, síðan 25 þúsund tonna veiðikvóti í haust og 7 þúsund tonna viðbótarkvóti í lok desember. Ekki náðist í yfirmenn hjá Hafrannsóknarstofnun við vinnslu þessarar fréttar.