Listasmiðja barna og unglinga var haldin á Snæfellsnesi í viðburðarviku Vesturlands dagana 23.-30. apríl. Þemað var Snæfellsjökull og var þetta sameiginlegt verkefni Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólms.  Í listasmiðjunni voru börn frá 1.- 7. bekk og var boðið upp á myndlist, leiklist, dans, ljósmyndun o.fl.  en þó mismunandi námskeið eftir bæjarfélögum.

Þáttaka fór fram úr okkar björtustu vonum í Snæfellsbæ voru 53 börn í Grundarfirði voru um 20 börn, Stykkishólmi 25 börn og skemmtum  við okkur konunglega. Við fengum frábæra kennara til liðs við okkur sem að sáu um námskeiðin.  Sýning á verkum barnanna var á hverjum stað fyrir sig, t.d. í skólunum í Grundarfirði og Stykkishólmi. Í Snæfellsbæ er myndlistasýning í kaffihúsinu Gamla Rif, þar sem sjá má jökulinn frá hinum ýmsu sjónarhornum og litum. Ljósmyndirnar sem börnin tóku á svarthvíta filmu og unnu frá grunni af kynjaverum í hrauninu má sjá á www.netheimar.net  og  voru börnin yfir sig heilluð hvernig ljósmyndir verða til.

Við sem stóðum að listasmiðjunni  vorum einstaklega ánægð með hvernig til tókst og gaman að geta verið með sameiginlegt verkefni  fyrir börn á Snæfellsnesi með Snæfellsjökul  sem þema. Menningarsjóður Vesturlands og Sparisjóður Ólafsvíkur styrktu þetta verkefni .

mynd1, mynd2, mynd3, mynd4.

Fh. Lista-og menningarnefnd  Snæfellsbæjar

Þórdís Björgvinsdóttir