Bæring Cecilsson var Grundfirðingum vel kunnugur á síðustu öld enda lét hann sig sjaldan vanta með myndavélarnar sínar þegar eitthvað var um að vera í bænum.

Eftir Bæring liggja tugir þúsunda ljósmynda sem Grundarfjarðarbæ voru afhentar til varðveislu í maí 2003, rúmu ári eftir andlát Bærings og var við það sama tækifæri opnuð Bæringsstofa í Sögumiðstöðinni til minningar um hann. Bæringsstofa er safn með munum og myndum úr eigu Bærings auk þess að vera bíó- og fyrirlestrarsalur. 

Í dag klukkan 18:00 verður ljósmyndasafnið www.baeringsstofa.is opnað með formlegum hætti í Bæringsstofu og eru allir velkomnir þangað við þetta tækifæri. Í kjölfar opnunarinnar verður unnt að skoða um 1.500 myndir úr safni Bærings á vefnum og munu fleiri myndir bætast við á næstu misserum.